Sunday, July 20, 2008

 

Dásemdir.

Í síðasta pistli minntist ég á strengdar línur. Við feðgar áttum frábæran föstudag við Ölfusá. Ekki spillti nú veðrið fyrir okkur. Skáldið hóf talninguna klukkan hálfátta. Það átti líka síðasta orðið á slaginu eitt. Þá höfðu línur okkar þanist meira og minna allan morguninn. Draumar gamals veiðimanns höfðu sannarlegt rætst. Samtals lönduðum við 10 löxum þennan indæla morgunn. Seinni vaktin varð rólegri en þó bætti skáldið þeim ellefta við. Við hættum um kvöldmatarleytið enda orðnir alsælir með feng okkar. Við munum ekki gleyma þessum rómaða 3ja stanga degi í bráð. Ættfaðirinn jók svo við aflann í gær með því að krækja í 2 laxa. Ég minntist á það um daginn að laxarnir yrðu 100 á laugardagskvöldið. Veiðin tók þó enn meiri kipp og í gærkvöldi höfðu 148 laxar veiðst hér. Fagnaðarefni, og ég spái að þeir verði yfir 200 um mánaðamótin. Þá er allur ágúst eftir. Hösmagi hyggst sjóða lax þegar líður á daginn. Held að skáldið hafi nú þegar gætt sér á góðmetinu með Helgu og vinum. Maggi er nú í sumarhúsi með fjölskyldunni og þar er líka örugglega laxaveisla.Hösmagi var hálfsteiktur við heimkomu í gærkvöldi. Glampandi sól og handarbökin nær svarta litnum en þeim ljósa. Raikonen beið fóstra síns og fagnaði að venju. Hann þurfti að hnusa vel af innpökkuðum feng fóstra síns. Það er sem sé full ástæða til að láta sér líða vel á þessum fallega sunnudegi. Vika í næsta veiðidag og þá eru eftir 3 ágústdagar með viku millibili. Veiðivötnin bíða okkar feðga og langfeðga 12.-14. ágúst. Það er því heilmikið af dásemdunum eftir.
Eftir hádegið ætla ég enn að óðalinu undir Búrfelli.Á von á að ræsið og vegstúfurinn séu orðin að veruleika. Draumurinn um kærleikskotið lifir enn góðu lífi.
Þrátt fyrir ljúfa þreytu eftir 2 veiðidaga í röð gekk Hösmagi seint til náða. Vaknaði þó snemma að venju. Fékk mér göngutúr í lognblíðunni og naut þess út í hörgul. Það verður bara ljúft að leggja sig aðeins aftur. Kæmi alls ekki á óvart að laxfiskar geri vart við sig í draumalandinu. Við Kimi sendum vinum okkar hinar ljúfustu kveðjur úr sumarblíðunni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Gleðst með ykkur feðgum.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online