Tuesday, July 29, 2008

 

SF.

Pistillinn gæti nú alveg eins heitið nöldrað í sólskini. Hitastigið er nú þegar komið í 20,8 gráður. Sagt er að enginn sé spámaður í sínu föðurlandi. Fullyrðingar mínar um eðli Samfylkingarinnar undanfarin misseri hafa þó allar reynst réttar. Hugsjónalausa moðsuðan kraumar enn í pottinum. Reyndar heilmikið soðið uppúr nú þegar, og grauturinn sem eftir er, er viðbrenndur. Fagra Ísland falsorðin tóm. Nú vill gamli íhaldsmaðurinn sem síðast náði kjöri fyrir SF stokka upp stjórnarsáttmálann. Hann sér sem er, að ríkisstjórnin ræður ekki við þau mál sem nú brenna heitast á landsfólkinu á þessu volaða skeri. Það eru reyndar fleiri sem sjá þetta. En ráðherrar SF berja hausnum við steininn. Og varaformaðurinn einnig. Það er með ólíkindum hvernig hann talar. Og þó. Valdasýkin er takmarkalaus. Deilum og drottnum meðan hægt er. Það er alveg óþarfi að ræða stjórnarsáttmálann. Það nægir nefnilega að " breyta um nálgun". Í " hvora áttina sem er" Hringlið og svikin vefjast ekki fyrir honum frekar en öðrum forystumönnum SF. Þeir þekkja ekki máltækið að orð skuli standa. Það er lítið verk og löðurmannlegt hjá viðskiptaráðherranum, þingmanni suðurkjördæmis, að taka skóflustungu að nýju álveri í Helguvík. Þaðan kemur svo þessi snillingur austur í hreppa og segist vera á móti virkjun Þjórsár. Rafmagnið á þó m.a. að nota til að knýja þetta sama álver. Honum leiddist heldur ekkert austur í Kína um daginn. Hann er gott dæmi um rotnunina sem hrjáir þessa flokksnefnu. Það er svo sem ýldufnykur á fleiri stöðum. Íhaldið lagast nú ekki mikið. Það má sannarlega segja að skel hæfi kjafti í núverandi ríkisstjórn. Þar les hver limur biblíuna afturábak eins og Satan forðum. Vonandi springur þessi ríkisstjórn með hvelli. Sem allra fyrst. Ég hef aldrei upplifað aðra eins áþján í pólitíkinni. Þetta er algjörlega gagnslaust lið. Miklu verra en ekki neitt. Veruleikafirringin, valdasýkin og stjórnleysið ræður ferðinni. Það er nú þegar orðið okkur ákaflega dýrkeypt. Rekum þau úr fílabeinsturninum og látum þau strita í svita síns andlitis. Mokum svo út úr musterinu við Austurvöll. Þegar því er lokið verðum við á réttri leið. Kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Hva, níð um Samfylkinguna? Aldrei hefði ég trúað þessu upp á þig! Sössi Bjössi
 
Níð og níð. Held varla. Sannleikurinn verður ávallt sannleikur hvað svo sem hann er kallaður. Bestu kveðjur, Hössi hressi.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online