Monday, April 28, 2008

 

Skógarferð.

Fyrir margt löngu fór ég í skógarferð á reiðhjóli. Þessir farkostir eru þarfaþing í góðu veðri. Einkum og sérílagi þar sem landslag er slétt og lítið um brekkur. Logn er líka ákjósanlegt þegar reiðhjólið er dregið fram. Umferðarreglur verður að virða og hjólið verður að vera í góðu ástandi og búið venjulegum staðalbúnaði slíkra farartækja. Mér varð hált á að ekki var allt í lagi með Faxa í þetta skiptið. Hellisskógur er friðsæll og góður reitur til útiveru. Það er gott að bregða sér upp með Ölfusá og njóta kyrrðar á þessum ágæta stað. En það má ekki brjóta lögin hér frekar en annarsstaðar. Löggan sem stoppaði mig og tók mig tali var reyndar óvopnuð.Ekki einu sinni gasbrúsi né kylfa. Svarta bókin var meðferðis. Það vantaði ljós á hjólið. Sekt kr. 1000. Glitauga vantaði aftan á þennan ágæta hjólhest.. Annar þúsundkall.Enginn barki í handbremsunni og enn þynntist í veskinu. Þegar þarna var komið sá ég mann koma gangandi eftir veginum. Ég greip tækifærið. Byrjaði að hlæja og benti lögga á þennan mann. Hann þyrfti sannarlega að taka á beinið. Þarna væri feitt á stykkinu og aldeilis fengur fyrir ríkissjóð. Löggi áttaði sig lítið á þessu og braut heilann ákaft. Hann spurði mig loks hvað ég sæi athugavert við þennan friðsama borgara. Það er augljóst. Þú sektar hann stórt því hann vantar allt hjólið.
Skilningsbros flæddi um andlitið og hann lagði léttstígur af stað í átt til kauða. Ég var snöggur að forða mér. Útundan mér sá ég vörð laganna í óðaönn að skrifa í svörtu bókina. Nú er langt um liðið og Faxi í toppstandi í bílskúrnum.

Kimi Raikonen hefur nú tekið afgerandi forustu í Formúlunni. Ég lagði nú ekki í að gerast áskrifandi að Sýn þó formúlan flyttist þangað. Læt mér nægja að fylgjast með í blöðum og á netinu. Við nafni hans erum að sjálfsögðu sælir með þessa stöðu. Þessi ágæti finni er að sanna það fyrir alþjóð hver sé langbesti ökuþórinn í formúlunni.
Ágæt helgi er á enda og nú eru fáir eftir á frestlistum skattstjórans. Það var gluggaveður hér í gær, svo ég brá mér í Kópavog til systur minnar og mágs. Afmælisdagur Gunnars frænda míns. Notalegt spjall yfir góðum veitingum að venju. Enn bíður Herconinn í skúrnum. Annar aukafrídagur í vikunni og það mun hlýna aftur. Kannski munu línur mínar strengjast fljótlega. Bestu kveðjur úr vorbirtunni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Án efa verða línurnar strengdar fyrr en varir! Bestu kveðjur frá Barcelona, sem brátt verður kvödd fyrir Tarragona, S.
 
Það er mjög góð spá fyrir 1. maí. Mér er eiginlega að verða mál. Eftir vinnutörn aprílmánaðar væru verðug verðlaun að strengja línur á þessum baráttudegi. Bestu kveðjur til Barselóna og Tarragona. Pápus.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online