Sunday, April 13, 2008

 

Morgunstund...

gefur gull í mund. Við Kimi vöknuðum nokkuð snemma í morgun. Mér brá í brún þegar ég kom fram í stofu og leit út um gluggann.Það snjóaði. Það snjóar enn og mér sýnist kominn svona 15 cm jafnfallinn snjór. Þetta er bara svindl. Vona að hlýja lægðin sem búist er við á þriðjudaginn fari ekki eitthvað annað. Dýrið hafði engan áhuga á útiveru. Ekki ég heldur. Hann fékk sér að éta og ég hitaði kaffi. Vindill og nokkur teningsköst með kaffinu. Nóg af pappírum enn svo ég réðst til atlögu. Og merkilegt nokk,litli nagarinn nennti ekki einu sinni að ráðast að skrifborðinu og hefur sofið hér fyrir aftan mig í allan morgun. Ég hef ekki slegið nein vindhögg. Hef lokið við 2rekstrarskýrslur og er nú nokkuð drjúgur með mig. Í gamla daga, þegar ég iðjaði miklu meira á þessu sviði en núorðið, var þetta líka alltaf langdrýgsti tíminn til starfa. Engin truflun af síma eða heimsóknum. Þá var þetta allt unnið á pappír og gífurleg vinna að vélrita hvern einasta staf. Ég hef nú stundum lýst tækniþekkingu minni hér áður. Sannkallaður auli á því sviði. Kann tæplega á farsíma. Bara að hringja og svara. Mér leist mjög illa á byltinguna sem varð við tilkomu netsins. Var viss um að mér tækist aldrei að telja fram til skatts með þessum hætti. En raunin hefur orðið önnur. Kannski ekki sá færasti, en samt skotgengur þetta. Vinnusparnaðurinn er gífurlegur, því nú fer hvert einasta framtal sem ég geri um netið. Ég og kúnninn högnumst báðir á rafrænunni. Og ég á eftir að krossa við fleiri í dag. Maður nennir ekki einu sinni í bíltúr í svona tíðarfari. Hvað þá að maður hugsi til fjalla með veiðistöng.
Ég var reyndar við sömu iðju í gærkvöldi. Hafði sjónvarpið nægilega hátt stillt til að geta hlustað á söngkeppni framhaldsskólanna. Mörg mjög skemmtileg gömul lög og söngurinn ótrúlega góður hjá mörgum. Þetta var bara hið ljúfasta kvöld og við Rækjunen héldum sáttir til náða. Og enn grillir ekki í Ingólfsfjall fyrir ofankomunni. Ég segi nú bara: Hættu, og það strax. Samt líður mér prýðisvel og nú er það bara brauð og reyktur silungur. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Það á að setja lög á þennan andskotans snjó. Hvernig eiga menn að geta golfað í þessu. Maður spyr sig.
 
Já, er þetta ekki orðið gott? Ég þarf svosem ekki að kvarta undan veðrinu en það er ekki laust við að maður sé farinn að finna til með fólki á Íslandi eins og tíðin hefur verið. Bestu kveðjur, Sölvi
 
Lægðin kemur í nótt drengir góðir. Ef það klikkar ætla ég í mál við Veðurstofuna.Og hún verður krafin um stórar fjárhæðir fyrir skemmdir á geðheilsu.
 
Ég legg til stofnun að baráttusamtökunum S.N.JÓ.R (Snjólaust nema um jólin-réttindafélagið).
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online