Thursday, April 24, 2008

 

Ömurð.

Á mínum bæ var lífið ágætt síðasta dag vetrar. Og ekki spillti morguninn á fyrsta degi sumarsins. Indælis vorveður þó dimmt sé yfir. Við Kimi alveg sérlega hressir í morgun. En ég er nú samt ekki hress með atburði gærdagsins við Rauðavatn. Því miður eru nú mótmæli vörubílstjóranna ekki nógu vel skipulögð. Þeir hafa líka misst samúð margra að undanförnu af því aðgerðirnar bitna harðast á þeim sem síst skyldi. En það var ömurlegt að horfa á aðgerðir lögreglunnar gegn þessum mönnum. Mér sýndust þær nánast stjórnlausar. Piparúði og kylfur. Gas, gas, gas, æpti einn laganna vörður. Bæði Frankeinstein og Drakúla hefðu verið stoltir af þeim manni. Þetta er nýi herinn dómsmálaráðherrans. Her, sem telur öll meðul leyfileg. Og ráðherrann sjálfur lýsti því fjálglega yfir að lögreglan hefði " brugðist hárrétt við". Það kom svo sem ekki á óvart því hann er enn í kaldastríðinu. Hvað sem fólki kann að finnast um mótmæli vörubílstjóra held ég að enginn vilji horfa upp á svona vinnubrögð lögreglunnar.Það er líka vitað að sterk öfl þrýsta á að lögreglan hefji vopnaburð. Fyrst rafbyssur svona til að prufa sig áfram og síðan venjuleg skotvopn.Við skulum vera á varðbergi, fylgjast með og mótmæla hástöfum þegar tilefni er til. Við vitum vel hvaða skoðanir dómsmálaráðherrann hefur á mótmælendum. Þeir eru ekki mikilst virði eða hátt skrifaðir hjá honum. Það var líka annar ráðherra í fréttunum í gærkvöldi.Heilbrigðisráðherrann, sem var í stuttbuxnadeild Flokksins fyrir margt löngu. Við vitum hvaða hugsjónir hann hefur. Einkavæða allt sem mögulegt er í heilbrigðisgeiranum. Hann er mjög snjall við endaskipti á staðreyndum. Nýlega tilkynnti hann vaktabreytingar í starfi skurðhjúkrunarfræðinga. Breytingar, sem meðal annars lækkuðu laun þeirra. Þetta eru nær eingöngu konur. Þær hafa flestallar sagt upp störfum. Ég styð þær heilshugar. Svo lýsir hann því yfir í gær að hann sé viss um að þær mæti til vinnu 1. maí. Annað væri að tefla lífi sjúklinga í tvísýnu.Sumir menn eru leiknir í grjótkasti úr glerhúsinu. Það er þessi maður sjálfur sem teflir öryggi sjúklinga í hættu með framferði sínu. Það er eins og einhver veirusýking hrjái alla ráðherra íhaldsins og reyndar hina líka. Um suma má segja að betra sé illt að gera en ekki neitt. Og hinir hafa lagst í ferðalög. Þeir eru stikkfrí í Kína eða ábúðarmiklir í Afganistan. Þessi ríkisstjórn er ömurðin ein. Störf hennar svona álíka mikil og viturleg og núverandi borgarstjórnar. Líklega væri best að hugsa ekkert um þetta ástand. Og vera ekki að minnast á það heldur. Samt lifir maður enn í voninni um að það komi sá dagur að maður þurfi ekki að skammast sín fyrir stjórnarherrana. Því miður bendir ekkert til þess að hann sé á næstu grösum.

Lyklaborðið við tölvuna neitaði að hlýða í morgun. Illt í efni í skattiðjunni.Ég sá lika fyrir mér bloggstopp. Ég lét daga til fulls. Þreif Lancerinn og dundaði við svona hitt og þetta. Undir hádegi fór ég vinnustað og hitti Árna Vald á náttsloppnum. Hann var að vinna í bókhaldi sínu. Hann átti lyklaborð í grænum poka sem ætlaður var undir fiskimjöl. Það var alveg eins og mitt af gerðinni Dell. Hann gaf mér það og ég hélt heim fremur sporléttur. Ég skipti um lyklaborð en ekkert gerðist. Þá hringdi ég í tölvumanninn góða. Ég endurræsti tölvuna en henni varð ekki þokað. Þá slökkti ég á henni. Kveikti aftur og viti menn. Það varð ljós. Kannski á ég bara varalyklaborð í góðu lagi. Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars og megi þessi dagur færa ykkur gleði.
Kveðjur frá mér og lúrandi Léttfeta, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ótrúlegt hvað þetta að slökkva/kveikja getur oft gert góða hluti. Það væri kannski ráð að prófa að slökkva á varnarmálaráðherranum og kveikja aftur. Mjög ólíklegt og langsótt að það mundi laga eitthvað en maður á víst aldrei að segja aldrei.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online