Friday, April 11, 2008

 

Orðhengilsháttur.

Þessi pistill verður nú ekki eins og snilldin sem hvarf út í eterinn í gærmorgun. En ég ætla að endursegja nokkur orð af honum.Álverið í Helguvík rís bráðlega. Stóriðjuhraðlestin er komin á fullt skrið aftur. Það breyttist ekkert þó SF skriði uppí til íhaldsins í stað framsóknar. SF á Akureyri hefur krafist álvers á Bakka við Húsavík. Það kemur næst á eftir Helguvík. Fagra Ísland var aldrei annað en kosningabrella. Allt of margir umhverfissinnar sáu ekki í gegnum þessa hugarsmíð Dofra Hermannssonar og léðu SF atkvæði sitt í síðustu kosningum. Ég skrifaði marga pistla um SF og fagra Ísland fyrir kosningarnar. Flest sem ég sagði hefur gengið eftir. Markmið SF var einungis að komast til valda. Kosningaloforð er auðvelt að svíkja. Stólarnir eru mjúkir og ferðalögin indæl. Boðskapur SF fyrir kosningar var sá
að gera ætti heildstæða athugun og áætlun um náttúruvernd. Hvað skyldi alfriðað og við hverju mætti kannski hreyfa og nýta. Stóriðjustopp uns þeirri vinnu væri lokið.Nú segir Dofri að Helguvík hafi verið "í pípunum". Ekki hægt að koma í veg fyrir hana. Bakki hefur líklega verið farinn að kíkja inní rörin líka. Það ömurlegasta hjá SF í vörn sinni fyrir svikum á kosningaloforðum eru hugleiðingar um VG og Steingrím Sigfússon. Hann myndi hafa gert þetta allt líka ef hann hefði fengið að njóta yls íhaldsins að kosningum loknum. Réttlætir það svik SF nú? Hver pistillinn af öðrum frá SFliðum og viðtöl í sjónvarpi ganga helst út á þessa rökleysu. Dofri var í kastljósi í vikunni. ISG í öðru. Þegar þeim var bent á staðreyndir um málflutninginn fyrir kosningar og síðan á það sem nú er að gerast var það afgreitt með nánast einu orði. Orðhengilsháttur. Það er allt í lagi hjá SF að míga yfir kosningaloforð af því Steingrímur hefði örugglega gert það líka. Pistill nafna míns sænska frá 4. apríl er nokkuð gott dæmi um það sem ég er að segja.
Þetta land er nú stjórnlaust í efnahagsmálum. Ríkisstjórnin gerir ekkert. Ráðherrarnir á flækingi með einkaþotum út um allar heimsgrundir.Það myndi líklega redda öllu ef við komumst í öryggisráðið. Það virðist skipta ráðherrana meira máli en að það stefni í fjöldagjaldþrot margra íslenskra heimila. Yfirnagarinn hækkaði enn stýrivextina í gær. Þeir eru nú hvergi hærri í heiminum öllum. Verðbólgan stefnir í 15% um næstu áramót. Ég held að hagfræðiprófessorinn sem var í fréttunum í gær hafi rétt fyrir sér. Hann sagði nánast að það þyrfti að moka öllu þessu liði musterisins út strax og fá hæfa menn í staðinn. Ég held að það sama gildi raunar um landstjórnina.
Við Kimi, sem er nú voðalegur nagari eins og musterisriddarinn, erum nokkuð brattir í morgunsárið. Veður allgott en vorið er þó ekki komið enn. Síðasti dagur vinnuvikunnar í dag og heimavinnan gengur nokkuð vel.Sæki veiðikortið kl. 6, síðan í klippingu hjá Hildi og svo meiri heimavinna. Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Við vorum að minnsta kosti að taka fram úr Tyrklandi. Óhuggulegt hversu íslenskur almenningur hefur verið illa leikinn í öllu "góðærinu" - beinlínis notaður til veðsetningar fyrir áhættufjárfesta sem mokað hafa upp milljörðum og svo falla á okkur lánin þegar þrjótarnir komast í þrot . . .

Hvað um það. Indælisveður í Barcelona. Erum að taka saman tekjurnar hennar Helgu svo þetta ætti að fara að smella með skattinn. Kaffið í könnunni og spilastokkurinn klár svona rétt til að slaka á fyrir næstu vinnulotu. Bestu kveðjur héðan, Sössi
 
Jújú, böl skal svo sem bæta að benda á eitthvað annað. Rétt. Breytir því þó ekki að það er hræsni hjá VG að gagnrýna það sem þeir viðurkenndu rétt eftir kosningar að þeir myndu sjálfir gera. Umhverfisplögg VG eru því álíka marklaus. Stend þar við hvert orð.

En það er auðvitað miklu þægilegra fyrir Steingrím og félaga að vera í stjórnarandstöðu og geta gasprað um það að þeir hefðu gert eitthvað allt annað þegar að fólk veit mætavel að Steingrímur gerði sér jafnvel grein fyrir því að Helguvík var komin of langt til að hægt væri að stöðva hana.

Hins vegar þykist ég vita að Hösmagi hefði ekki heldur dregið af gagnrýni sinni í garð VG hefðu þeir komist í stjórn enda ekki hlíft sínum mönnum frekar en öðrum þegar að gloríur eru gerðar. Það má hann fyllilega eiga.

Varðandi efnahagsmálin þá er bara ein lausn til frambúðar: ESB. Þá losnum við meðal annars við að Davíð og Halldór Blöndal ákveði stýrivextina okkar.
 
Ég sé nú bara alls ekki hvað Steingrímur Sigfússon kemur þessu máli við. Það er bara einföld staðreynd að hraðlestin er komin af stað á sömu eða meiri ferð en nokkurntíma áður. Og það er inntakið í Fagra Ísland SF nú.Þeir sem ekki viðurkenna kosningasvik SF í stóriðjumálum berja einfaldlega hausnum við steininn.Nafni minn má andskotast út í Steingrím eins og honum sýnist enda er ég flokkslaus maður.Djöfulgangur SFliða breytir engu um staðreyndir sem liggja fyrir.
 
Jú, það má svo sem vel vera. Enda hef ég heldur engan áhuga á því að standa í einhverri sjálfkrafa vörn fyrir Sf. Má vera að þeir standi sig hryllilega í umhverfismálum og séu að svíkja allt. Veit ekki. Hef ekki borið saman stefnuna fyrir kosningar og gerðir eftir.

Enda var ég nú fyrst og fremst að deila á tvöfeldnina í Steingrími og kannski að benda á þann punkt í leiðinni að meira að segja (meintir) umhverfissinnar eins og hann áttuðu sig á þeirri staðreynd að umhverfisráðherra var, því miður, fyrir löngu gerður áhrifalaus í þessu máli.

Hins vegar er ég fyllilega sammála um að tónninn í Sf. er allt of linur í málinu um Bakka fyrir norðan enda veit ég ekki til þess að nokkur umhverfissinni (í merkingunni álvers-skeptíker) sitji á þingi fyrir hönd Sf. þaðan.

Bestu laugardagskveðjur.
 
Gott að skerpa stundum á hlutunum.Líklega lært það af þér, nafni góður, að þá fær maður meiri viðbrögð. Góðar kveðjur til baka.
 
Já, það er óbrigðult ráð.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online