Wednesday, April 30, 2008

 

Dýri.

Ég kalla nú kisa minn stundum Dýra. Það minnir mig líka á Dýra prúðuleikara. Dásamleg sögupersóna, og nú verð ég að fara að grafa upp bolinn góða sem ég keypti á Mallorca 1992 með flennistórri mynd af honum. Dýri minn þrífst vel af þurrmatnum frá Whiskas. Túnfiskur, kjúklingur og nautakjöt. Rétt fyrir áramótin kostaði eitt og hálft kíló af þessari fæðu 395 krónur. U.þ.b. 263 kr. pr. kg. Ég keypti 2ja kg. pk. í Bónus á laugardaginn var á 798 kr. Kgverð kr. 399. Mér blöskraði þessi hækkun hjá lágvöruverðsversluninni. Sé þó ekki eftir aurunum í mat handa dýrinu mínu. Svo fór ég í Nóatún í gær. Þar tók nú enn verra við. Tvennskonar umbúðir. Eitt kíló á 689 kr. Fjögurra kílóa poki á 1899 kr. eða 475 kr. kg. Ég ætla að hringja í neytendastofu í dag. Svona kúnstir þurfa rannsóknar við. Það er skuggalegt hvað hefur verið að gerast á matvörumarkaði hér að undanförnu. Þó heimsmarkaðverð hafi farið hækkandi og krónan lækkað verða hækkanirnar ekki skýrðar með því einu. Kaupmenn virðast spila á þetta í skjóli þess hvað margir eru ómeðvitaðir um verð á vöru þegar keypt er inn. Undirritaður býr einn með Dýra og er nú frekar neyslugrannur.Hef að auki þokkalegar tekjur. Láglaunamaður með stóra fjölskyldu verður heldur betur var við hækkanirnar. Enda kjarasamningar á leið í uppnám. Ráðherrarnir þegja. Ráðleysisherrarnir. Kannski rætist spá völvunnar um að stjórnin hrökklist frá fyrir áramót. Það væri góð gjöf til þjóðarinnar. Það myndi þó laga eitthvað ef þetta fílabeinslið reyndi að hugsa um hag almennings. Láta draumóra um öryggisráðið róa. Þetta fólk er algjörlega úti á þekju og uppí rjáfri.Valdasýkin elnar með hverjum deginum og áþján almennings vex að sama skapi í kjölfarið. Mig undrar ekki að unga fólkið hugsi sér til hreyfings. Burt frá þessu stjórnlausa skeri. Gamli veiðirefurinn mun þrauka hér áfram. Ég set tappa í eyrun þegar snillingarnir sem nú stjórna landinu láta ljós sitt skína. Ég ætla að hætta hér svo minni hætta sé á fjölmælum.

Svalann leggur inn um gluggann. Rokið er þó á undanhaldi og ég teysti á góða spá fyrir morgundaginn. Þegar línur mínar strengjast á morgun verða hugsanir um Sollu og Geira víðsfjarri. Bestu óskir til allra krútta, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online