Tuesday, April 22, 2008

 

Vetur er úti.

Veturinn kveður í kvöld og sumarið tekur við á miðnætti. A.m.k. samkvæmt almanakinu. Einhver var að tala um nýjan kuldaskít um mánaðamótin en hann varir varla lengi úr þessu. Við Kimi höfum stungið saman nefjum og báðir búnir að viðra okkur aðeins. Í bili er ég stopp við pappírsiðjuna. Kengur í kerfinu því tölvan finnur ekki pdf. skjölin með framtölum fyrra árs. Ef þetta lagast ekki hringi ég í tæknideildina hjá ríkisskattstjóra. Þar er alveg ágætisfólk sem hefur sjaldséðan eiginleika meðal ríkisstarfsmanna. Til þjónustu reiðubúið. Það er meira en hægt er að segja um þennan starfshóp almennt. Ég er löngu hættur að tala við skattyfirvöld hér á suðurlandi.Það hefur aldrei verið til neins. Ekkert nema leiðindin og mín alkunna geðprýði í stórhættu. Ég hef skrifast á við þetta embætti í nokkra áratugi. Mér brá því verulega fyrir 2 árum þegar beðist var afsökunar í bréfi til eins af mínum skjólstæðinum. Ég hélt að heimsendir nálgaðist. Svo frétti ég stuttu síðar að allt liðið hefði verið sent á samskiptanámskeið. Þetta hefur örugglega reynt mikið á þetta blessaða fólk sem hefur unnið á þessu embætti. En það lærði þó smávegis. Flestum verður okkur á í messunni þó sum okkar eigi erfitt með að viðurkenna það. Ég er þakklátur fyrir að eiga auðvelt með þetta. Það er mér einfaldlega ljúft og fyllir mig vellíðan að biðjast afsökunar ef þess er þörf. Og stundum hef ég orðið að gera þetta í mínu daglega starfi þó ég hafi ekki átt neina sök á því sem úrskeiðis fór. Sumt fólk er bara ekki alltaf áttað eða með á nótunum.

Nú braust sólin skyndilega gegnum skýjahuluna. Það er norðangola og hitinn við 5 gráður. Kimi að skjótast innum gluggann og gæðir sér nú af döllum sínum.Þar er þó enginn Bónuslakkrís sem er nýjasta uppáhaldsfæða þessa dýrs. Ég þarf hvort eð er að kíkja við í Bónus þegar störfum lýkur í dag. Það er vorhugur í okkur báðum. Veiðieðlið einnig sprelllifandi. Ég hef nú ekki enn bleytt öngul á þessu ári. Það styttist í það enda hléið orðið lengra nú en nokkru sinni undanfarna 3 áratugi.Síðasta kast var í Ónefndavatn 13. ágúst í fyrra. Þegar ég sofnaði með stöngina í fanginu. Erfiðir dagar og vikur tóku við. Þá var gott að eiga góða að. Það gleymist mér ekki.Sagt er að kötturinn eigi 9 líf og ég held að það eigi við um mig líka. Búinn með nokkur, en nóg eftir samt. Sannarlega er ég lukkunnar pamfíll að geta horft björtum augum fram á komandi daga. Björtu næturnar framundan bæta allt upp. Rólyndi hugans hefur tekið völdin á ný og þá eru flestir hlutir auðveldir viðfangs. Bestu kveðjur, krúttin mín kær, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online