Sunday, April 20, 2008

 

Ball í Skúlagarði.

Eftir pistilskrif morgunsins fór Hösmagi í sauðaeftirlit í vorblíðunni. Allt svona nokkurnveginn með kyrrum kjörum. Raikonen fagnaði mér við heimkonuna og sefur nú í baðvaskinum. Það hefur skeð áður. Ég lagði mig reyndar líka. Það varð til þess að ég komst í nirvana. Dreymdi milli svefns og vöku. Talaði við fólk, m.a. skáldið mitt.Varði íbúðalánasjóð sem einhver var að skammast út í. Og svona hitt og þetta annað. Kaffið löngu uppdrukkið og mig langar ekki í meira. Svo leit ég um öxl. Stundum var ákaflega skemmtilegt að vera ungur. Þá munaði mann lítið um að vaka eina vornótt og slarka smávegis. Síðla sumars 1964 hóf ég störf hjá Orkustofnun. Fór norður í land. Svarfaðardalur, Akureyri og Mývatnssveit. Þá fór ég líka á fyrsta ballið í Skúlagarði í Kelduhverfi. Nærri aldimmt á kvöldunum þeim. Þetta varð tíðindalítið ball en Negrita rommið var nokkuð gott. Þegar ballinu lauk löbbuðum við 2ja km leið heim í Laufás. Það var komið frost og við á nælonskyrtum.Ég varð veikur um nóttina. Við morgunverðarborðið sagði Björn bóndi: Já, morgnarnir er margir og menn eru timbraðir oft. Honum hefur ekki litist á uppburðarlita rauðhausinn. Í Kelduhverinu hétu karlmenn þá varla annað en Björn og Þórarinn. Kannski er það svo enn. Við héldum á brott og skoðuðum Dettifoss. Ég var hraustur í þann tíð en skalf allan daginn. Sennilega verið með 40 stiga hita.Við komum til Akureyrar seint að kvöldi og daginn eftir fórum við að mæla í Svarfaðardal. Þá var ég orðinn hress og um kvöldið vildi Ragnar klára rommið. Það rann ljúflega niður í okkur báða. Árið eftir vorum við aftur á ferðinni í Kelduhverfinu. Stórdansleikur í Skúlagarði og nú hafði birtan völdin. Þetta var þrumuball. Þá tíðkaðist að dubba bændur uppí löggur um helgar. Þetta var nokkuð velborgað aukadjobb og kærkomið fátækum sauðfjárhirðum. Ég man sérstaklega vel eftir einum. Það var Guðmundur á Ærlæk. Hann var með þessa hluti alveg á hreinu. Ég heyrði hann rökstyðja fyrir vini sínum hversu bráðnauðsynlegt væri að hafa ball um hverja helgi. Höfuðrök Guðmundar voru þessi: "Það safnast þá ekki í punginn á strákunum nema eina viku í einu". Þessi heimspeki sauðfjárbónda á hjara veraldar er örugglega ekki verri en mörg önnur speki.
Við hittum stelpur frá Húsavík á þessu balli. Þær vildu fá okkur með sér heim. Okkur fannst það þjóðráð. Mágur minn ágætur hafði keyrt okkur á ballið en gisti hjá Birni bónda eins og árið áður. Þetta var nú löngu fyrir daga GSM. Nokkuð liðið á bjarta nóttina og nú var ekki staður né stund til að pæla í morgundeginum.Við héldum til Húsavíkur og það varð mikil veisla í ónefndu húsi við Garðarsbraut. Á þessum tíma var ég frjáls maður. Sumir kölluðu það að vera laus í festum því ég átti vinkonu sunnan heiða. Hún var ekki í huga mér þessa skemmtilegu nótt fyrir 43 árum. Eftir hádegi daginn eftir gátum við náð sambandi við Freystein mág minn og hann sótti okkur til Húsavíkur klukkan 4. Við kvöddum meyjarnar með tárvotum augum, heitum kossum og mikilli blíðu. Ég hef ekki séð þær síðan og nú er fennt yfir nöfn þeirra. En mér fannst bara skemmtilegt að rifja þetta upp.Ævintýri Hösmaga voru rétt að byrja.Ég starfaði hjá OS 10 sumur. Mikil ferðalög og mörg sveitaböll.

Nú eru aðeins eftir skaflar í dýpstu giljum Ingólfsfjalls.Þeir eru á hröðu undanhaldi. Og nú kíki ég á Herconinn. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Bið að heilsa Ingólfsfjalli. Ég mun vitja þess í sumar.
 
Kveðjur mínar fara til Búrfells, en á það held ég að við ættum að ganga með stöng í sumar. Túdúlú, Sössi
 
Þá munu línur okkar strengjast.Þetta minnir mig á landið góða.Við hæfi að skreppa þangað eftir vinnu á morgun, síðasta vetrardag. Og sumarið ætlar að heilsa með 12-13 gráðum á fimmtudaginn.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online