Tuesday, April 15, 2008

 

Zippó.

Ég hef lengi átt benzínknúinn Zippókveikjara. Eignaðist þann fyrri 1989. Sá hinn sami hafði margt kálið sopið. Fylgt mér við hversdagleg störf og nokkuð oft komið með mér á barinn. Þannig gekk það í 15 ár. Á leið í 40 ára stúdentsafmæli mitt hvarf þetta ágæti úr lífi mínu. Ég veit ekki hvert það fór.Svona eftirá að hyggja hafa mér dottið aliensarnir í hug. Þeir reyndust saklausir með seinni Zippóinn. Þennan sem lenti í þvottavélinni eins og ég sagði frá hér einhverntíma.Hann er nú hér á borðinu hjá mér. Fólk kvartar nú yfir háu eldsneytisverði á bílana sína.Það rokkar nú á bilinu 145-150 kall fyrir hvern lítra. En það er nú lítið miðað við samskonar orkugjafa á Zippó. Við kveikjarinn og ég urðum benzínlausir í fyrradag. Kveikjarabenzín er selt á litlum 125 ml brúsum. Og verðið? Fimmhundruðfjörutíuogþrjárkrónur. Fjögurþúsundþrjúhundruðfjörutíuogfjórarkrónur pr. lítra.Dýrt er nú tárið í Ríkinu en nær þó ekki þessum himinhæðum. Ég fæ Hörð í að finna lausn á þessu. Að koma bílabensíni á Zippóinn. Þá fengi ég 30 brúsa á verði eins.Kannski er bílabenzín ekki sætasta stelpan á ballinu, en það gerir sama gagn eins og maðurinn sagði. Það er ævilöng ábyrgð á Zippó. Gildir reyndar ekki ef hann glatast. Hann er nokkuð dýr í innkaupum. Líklega svona merkjavara eins og Boss. Zippo never fails segja kanarnir. Það á sem sagt alltaf að kvikna á honum þegar steinhjólið er strokið.Mér tekst það nú ekki alltaf.
Fyrir margt löngu var landkönnuður á ferð í hinni myrku Afríku. Hann var með Zippó í vasanum. Inní alsvörtustu myrkviðunum hitti hann fólk úr ókunnum þjóðflokki. Hann var viss um að þetta fólk hefði aldrei kynnst menningu annara. Eftir að hafa messað yfir liðinu dró hann Zippóinn upp úr vasanum og hélt honum í greip sinni. " Nú ætla ég að sýna ykkur kraftaverk". Snerti steinhjólið og loginn stóð út úr hnefanum. Hann beið eftir viðbrögðum frá hinum menningarsnauðu. Og það stóð ekki á þeim. " Þetta er sannarlega kraftaverk. Við höfum aldrei áður séð kvikna á Zippó í fyrstu tilraun" Það væri sennilega affarasælast að hætta að reykja. Þó stálið sé hart er það líka mjúkt. Notalegt að velta volgum Zippó í hönd sér. Minn núverandi Zippó er úr hertu stáli. Það er gult, blátt og fjólublátt. Sannarlega thing og bjútí sem verður æ til yndis.
Lægðin kom í gær. Ég minntist á 10 gráður. Þær urðu 12,9. Raikonen alveg friðlaus í nóttinni. Vakti fósturföður sinn með látum. Blíðulátum reyndar. Hefur verið á rjátlinu inn og út um gluggann. Vorið er komið. Við sendum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online