Sunday, April 06, 2008

 

Köld fegurð.

Ég er að koma úr Klettsvíkinni. Þar hef ég nú oft komið áður. Veðrið er geysifagurt í dag.Glampandi sól en hiti nýkominn rétt yfir frostmarkið. Mér datt í hug að líta á Ölfusá. Sjaldan eða aldrei séð hana svona tæra. Ég fór fyrst að Hrefnutanga og leit yfir breiðuna. Snéri við og staldraði við á Miðsvæðinu. Þar blasti við forsmánin sem nokkrir misvitrir menn stóðu fyrir fyrir nokkrum árum. Eyðilögðu besta spænissvæði árinnar með því koma fyrir grjóthnullungum í tugatali út í ánni. Þetta skemmdarverk var ekki borið undir félagsmenn. Þegar ég sá þessi hervirki fyrst trúði ég vart mínum eigin augum. Hélt hérumbil að ég væri kominn með deleríum tremens. En það gat bara engan veginn staðist miðað við lífernið. Ég fyrirgef þennan verknað aldrei. Krafðist þess á síðasta aðalfundi stangveiðifélagsins að grjótið yrði fjarlægt. Sumir tóku undir með mér. Aðallega Páll Árnason, einn reyndasti veiðimaður árinnar, sem þekkir ána best af öllum núverandi félögum. Líklega veitt í henni í yfir 50 ár. Sá sem lagði til grjótið og tólin til að koma því í ána vildi bara meira grjót. Ég sagði hreinlega ekki meira en hugsaði mitt. En það var virkilega gaman að sitja í Lögmannshlíðinni smástund nú um hádegisbilið. Sjá botninn nákvæmlega. Og hugsa um öll ævintýrin sem ég hef upplifað á þessum yndislega stað. Það yljaði sannarlega þó ég hafi aldrei áður setið þarna í svona kulda. Ég hugsaði mér líka gott til glóðarinnar næsta sumar. Ég fæ veiðikortið mitt á föstudaginn og hef pata af því að ég fái þá daga sem ég bað um. Það er mikið gleðiefni af því margir nýir félagar bættust við á aðalfundinum. Veiðihugurinn er enn til staðar hjá gamla veiðirefnum.
Ég held vitrænunni áfram. Hreinsaði vel til hér á kontórnum og Raikonen sefur nú á nýviðruðu teppinu frá Sölva og Helgu. Einn kross kominn á listann og von á miklu fleirum í dag. Sem sagt ágætt, með bestu kveðjum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online