Monday, April 14, 2008

 

Húdíni og farsíminn.

Ég keypti mér farsíma árið 1998.Afburðatæki af gerðinni Nokia. Einhver tala fyrir aftan nafnið.Kannski 3210. Síðla árs 2006 varð skjárinn óskýr. Daufur í dálkinn. Ég fór í símabúð og þeir sögðu þetta góða endingu og ég skyldi bara kaupa nýjan síma. Þeir áttu nettan Nokia síma sem mér leist nokkuð vel á. Keypti hann og málið var leyst. Mér þótti ákaflega vænt um gamla rauða símann. En það var erfitt við að eiga þegar allt var horfið af skjánum. Þegar heim kom setti ég þann rauða inní skáp í eldhúsinu. Sá svarti var vel nothæfur nema allir hringitónarnir voru leiðinlegir í meira lagi. Og tæknimaðurinn ég gat ekki staðið í tilfæringum við að fá nýja hringitóna. Ég saknaði fúgu Bachs mjög og kannski hefði ég getað fengið hana einhvernveginn í nýja símann. Tíminn leið. Dag nokkurn fyrir skemmstu kom Hörður bílameistari hingað til mín.Ég man ekki hvernig það atvikaðist en Hörður tók gamla góða Bach með sér. Ég kom aðeins við hjá honum á laugardaginn var. Þar lá sá rauði á eldhúsborðinu. Var eiginlega búinn að gleyma honum. Ég hef áður líkt Herði við Harry Húdíni sem flestir kannast við. Töframanninn snjalla. Hann hefði örugglega opnað Grána við Tangavatn um árið eins og Herði tókst þó lögreglan segði það útilokað. Og Hörður var búinn að eiga við Rauð gamla. Skjárinn var orðinn skýr að nýju.Hann var lika fullhlaðinn svo nú var bara að setja spjaldið úr Surti í Rauð. Það tókst fljótt og vel. Ég bað Hörð að hringja í mig. Það fór um mig fagnaðarhrislíngur. Gamla góða fúgan lét undursamlega vel í eyrum.Nú er Surtur í eldhússkápnum og gamli Rauður hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Það er eins og ég hafi endurheimt gamlan og góðan vinskap eftir langan aðskilnað. Ég hef oft minnst á snilli Harðar við bíla.Honum er fleira til lista lagt. Hann svona dedúaði aðeins við gripinn. Herti á þessu og slakaði á öðru og það varð ljós. Ég var bæði léttstígur og upp með mér þegar ég hélt til vinnu í morgun. Mér þótti eiginlega mjög miður að enginn skyldi hringja í mig í vinnuna í dag. Eftir vinnu hélt ég heimleiðis og hélt áfram við ritgerðina til skattyfirvaldanna. Ég hafði ekki setið hér lengi þegar fúgan hljómaði á ný. Á hinum enda línunnar var Hörður. Það var vel við hæfi. Smáerindi við lögmanninn og síðan almennt spjall. Gott að þekkja svona karakter.

Flestir veiðimenn vita að það má aldrei óska öðrum góðrar veiði. Það hefur komið fyrir að þetta hefur verið sagt við mig þegar ég hef haldið af stað með Herconinn. Þá hefur reynt á geðprýðina. Í síðustu viku heyrði ég nýtt orðatiltæki sem þýðir í raun það sama. Ég vil láta segja það við mig næst þegar ég fer til veiða. "Megi línur þínar verða strengdar". Eða þandar allt eins. Líklega er þetta enskt orðatiltæki sem einhver góður maður hefur snúið á íslensku. Næsta sumar ætla ég að hlusta á Bach með línur mínar strengdar.
Við Kimi förum að halla okkur. Lægðin góða kemur í nótt. Hitastigið gæti vel hækkað um 10 gráður. Það er ljúf tilhugsun. Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ætli þetta með strengu línurnar komi ekki bara úr Star Wars? Hljómar alla vega dálítið eins eitthvað með Svarthöfði og Logi geimgengill myndu hafa sagt hvor við annan áður en haldið var til stangveiða, einhvers staðar úti í geimi.

Annars er ég sammála þessu með leiðinlegu hringingarnar á nýjum símum. Fæ grænar bólur við allar hringingar nema þær allra lágstemmdustu.
 
Ó, megi þenslan þjaka allar línur
og þrædda tauma, og allir hnútar halda,
þá verður gott að grípa laxinn kalda
úr grænum streng í háf. Og síðan rífur

hann aftur færið út og tekur roku
í ána miðja og kafar þungt og lengi
í sól og logni, súld og niðaþoku,
en syrgir loks á bakka forna strengi.

Þá spillir laxa, spennufalli gæddur,
á spariskónum (vöðlum) fær sér kaffi
og vekur glóð í vindli, endurfæddur,
og vetrarþungi og hversdagssút í straffi.

Já, megi allir stangartaumar strengjast,
og stundirnar við ána að nýju lengjast.
 
Dásamlegasta kommentið frá byrjun. Hin tæra snilld. Frábært. Og lægðin er komin.Það hefur nú þegar hlýnað um 9 gráður. Hösmagi er í essinu sínu núna.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online