Saturday, April 19, 2008

 

Vorkoma.

Nóttina fyrir lægðarkomuna á þriðjudaginn var hér 6,9 gráðu frost. Í gær var hitinn 10,9 gráður. Sveiflan er því 17,8 gráður og það er nú nokkuð hér á norðurhjara.Þetta er eins og vítamínsprauta fyrir gamla veiðirefi. Að vísu hefur kvefið látið á sér kræla en það eru bara smámunir einir. Sálin komin á flug og vinnugleðin í hámarki. Ég er vel á undan áætlun í ritsmíðunum til skattmanns. Hér verður ekki látið staðar numið fyrr en skrifborðið hefur verið karað skínandi hreint. Ég var sannarlega sæll er ég gekk til sængur minnar í gærkvöldi. Nokkrir krossar höfðu bætst á listann. Gluggar og hurðir opnar og vorblæinn lagði í gegn. Kisi alsæll á rjátlinu. Ég fór til að skola rykið af grænu þrumunni og það var löng biðröð á þvottaplaninu. Samkvæmt veðurspánni verður svipuð tíð áfram og líkur á 10 stiga hita á sumardaginn fyrsta. Þá verða örugglega margir í golfi.Það er tími brauðs og leikja framundan. Tími hinnar nóttlausu voraldar veraldar er genginn í garð. Þegar bjart verður orðið ætla ég í bílskúrinn. Nú þarf að huga að Herconinum, önglum, hjólum og línunum sem munu verða strengdar í sumar. Nákvæmlega eins og segir í kommenti skáldsins: Já, megi allir stangartaumar strengjast, og stundirnar við ána að nýju lengjast.
Það er logn hér nú. Kaffið bragðast alltaf betur í góðu veðri. Raikonen er utanhúss og hnusar af vorinu. Hösmagi ætlar fljótlega að fara að dæmi hans. Það styttist í birtuna þó klukkan sé aðeins 4. Fimm tíma svefn er mér meira en nóg þegar svona viðrar á þessum árstíma. Þegar ég kem heim aftur ræðst ég á næstu möppu. Innihald hennar lendir á Hellu áður en haninn galar öðru sinni. Við Kimi sendum ykkur bestu kveðjur úr blíðu vorsins, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online