Monday, April 28, 2008

 

Fílabein.

Nú er verðbólgan að nálgast 12%. Þau Solla og Geiri hafa engar áhyggjur af því.Þetta sé bara smákúfur sem hjaðni strax aftur.Ríkisstjórnin hefur engar áhyggjur. Gerir ekkert. Þetta kemur henni ekkert við. Og það síðasta sem þessu fólki dytti í hug væri að leggja niður skottið og flýja af hólmi. Sem þó væri það besta fyrir okkur.Þessi ríkisstjórn er hrein áþján. Valdasýki Ingibjargar Sólrúnar verður okkur dýrkeypt. Það er nákvamlega sama hvar er borið niður. Fagra Ísland er löngu sokkið, enda ekki sjófært í upphafi. Stóriðjuhraðlestin á blússandi ferð. Öryrkjar og gamalmenni sitja á hakanum þrátt fyrir loforð SF um allt annað. Það sannast æ betur að allt sem ég hef sagt hér um þennan flokk er rétt. Algjörlega hugsjónalaus moðsuða.Bara fá að sitja að völdum. Forystuliðið sjaldnast á landinu. Veltir sér í vellystingum praktuglega í útlöndum. Margir kjósendur flokksins eru sem betur fer að átta sig á mistökum sínum. Bæði einlægir umhverfissinnar sem létu blekkjast og fjöldamargir aðrir. Ekki heyrist stuna frá SF vegna aðgerða heilbrigðisráðherrans. Hann mun fá frið til að eyðileggja heilbrigðiskerfið að vild sinni. Hvað varðar SF um aldraða, öryrkja og sjúklinga, ef við bara komumst í öryggisráðið.SF varðar líka lítið um hag íslenskra heimila. Skuldir þeirra hækkuðu um tugi milljarða króna nú í apríl. Hvernig væri nú að kippa sumum liðum út úr neysluvísitölunni? A.m.k. í bili.Af hverju eiga skuldir hins bíllausa að hækka um tugi eða hundruð þúsunda á einum mánuði af því eldsneytisverð hækkar? Mannsins, sem hjólar eða gengur til vinnu. Það ætti frekar að verðlauna slíkt fólk en að refsa því. Þetta eru þó svo hreinir smámunir fyrir foringja SF, sem trónir í fílabeinsturninum með gaurnum sem ekki tókst að ná í sætustu stelpuna á ballinu og varð því að gera sér ISG að góðu, að það tekur því varla að nefna þá.Af hverju eru stjórnmálin svona? Hvernig stendur á því að aldrei skuli vera hægt að treysta orðum stjórnmálaforingjanna? Það er vegna þess að meirihluti þeirra hefur þá hugsjón eina að moka nógu miklu undir rassgatið á sjálfum sér. "Hvað varðar mig um þjóðarhag" var einu sinni sagt. Það á vel við um kverúlantana sem nú stjórna þessu volaða skeri. Ég var einungis nokkra mánuði í stjórnmálaflokki. Það var bitur reynsla. Sumir hafa sagt við mig að ég hefði átt að vera þar áfram og berjast þar. Fletta rækilega ofan af sýndarmennskunni og tækifærispólitíkinni. Kannski er það rétt, en ég hafði ekki geð í mér til þess.Ég ætla að halda áfram á sömu braut. Standa við skoðanir mínar og skjóta á þá sem hlaupast undan merkjum. Ómerkinga, sem aldrei mun verða hægt að treysta.Fari þeir allir í fúlan pytt.

Það er fremur svalt hér í morgunsárið. Sól þó komin á loft. Líklega verð ég einn að störfum á Bakka í dag. Forstjórinn veikur og skrifstofustjórinn flúinn til útlanda.Þar ætlar hann að éta ódýran kjúkling. Og linsoðin egg.Reginmunur á því og andskotans trosinu hér. En samkvæmt spánni verður hlýtt og bjart á fimmtudaginn. Þá geri ég allt eins ráð fyrir að hreyfa Herconinn. Gæti farið svo að línur mínar strengdust.Aldeilis tími til kominn eftir langt hlé. Við Kimi, léttfetinn ljúfi, sendum ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ekkert verið að skafa utan af því í morgunsárið! Ég fékk annars bara fiðring í kroppinn þegar þú minntist á herconinn; hefði ekkert á móti því að vera á leiðinni í Tangavatn í góðu veðri með svosem eins og tvær samlokur í nesti. Og sviðasultu. Bestu kveðjur úr blíðunni, S.
 
Nauðsynlegt að rífa kjaft stöku sinnum.Stend við hvert orð.Það er gert ráð fyrir blíðu þann 1. maí. Ég ætla með flugustöngina með mér.Gott að þú minntir mig á svið.Nokkur kíló í kistunni sem henta vel í sultugerð. Kók, samlokur og sulta. Æskrím og rækja handa urriðanum. Hugsa til þín, Sölvi minn, Pápus.
 
Aldrei skilið þetta með sviðasultuna. Maður tekur með sér harðfisk í veiðina, ekki ómeti.
 
Fátt er betra en sviðsulta, meira að segja lifrarpylsa tekur henni ekki fram. Þurrkað læri er það eina sem hugsanlega skákar þessari kássu í límsósu.
 
Það jaðrar við blasfemi að kalla sviðasultu ómeti.Þessa líka hunangsfæðu.Þessi sjálflímandi kássa er langbest heimalímd.Nú tek ég pokann úr kistunni og lími svo í kvöld.Held svo í Tangavatn á morgun brynjaður ljúfmetinu.
 
Það held ég nú!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online