Sunday, October 29, 2006

 

Paradísarhöllin.

Þetta er nýjasta nafnið á kærleikskotið sem rísa mun á fyrirheitna landinu. Púðinn bíður vorsins. Eins og ég sjálfur. Það er þó ekki ástæða til að kvarta yfir veðri um þessar mundir. Síðasti dagur október á morgun og veðrið er enn ágætt. Hitinn 1° og svolítil gjóla. Og að venju erum við Kimi báðir búnir að viðra okkur. Myrkrið er að vísu svart. Ég sagði stundum að ég vildi hafa nóttlausa voraldar veröld allt árið. En síðar var mér bent á að þá gæti ég ekki hlakkað til vorsins. Líklega er okkur bara hollt að hafa gjólu og myrkur um tíma. Þess ljúfara verður vorið með ylnum og birtunni. Ég er viss um að ég mun fagna næsta vori sérstaklega. Nú er það ekki bara veiðiskapur. Laxinn og urriðinn. Nú bætist skógræktin við. Og annað vafstur á framtíðarlandinu. Efni og ástæður munu ráða byggingarhraða Paradísarhallarinnar. Það væri stór áfangi að geta lokið við sökkulinn fyrir næsta haust. Allt mun þetta skýrast smátt og smátt. Hösmagi unir sér nokkuð vel í draumalandinu á meðan. Og þegar kærleikssetrið verður risið getur hann sagt eins og Gunnar forðum. Hér vil ég una ævi minnar daga. Kannski má nema þungan dyn Sogsins úr Paradísarhöllinni á kyrrum síðkvöldum. Og síðar mun ilminn af trjám og lyngi leggja inn um opinn gluggann eftir gróðrarskúrina. Allt saman verður þetta harla gott. Þarna mun friðurinn ráða og fegurðin ríkja. Er hægt að fara fram á meira?

Eins og sjá má af framanskráðu er enginn efi í huga mér vegna kaupanna á þessu fallega landi. Það er gott fyrir sálina að vera sáttur við verk sín. Og veruleikinn mun taka við af draumunum. Þarna verður gott að vaka og þarna mun verða dásamlegt að sofna. Kisi sestur á skrifborðið og sleikir loppur sínar eftir morgunhnusið.Rólyndi hugans ræður ríkjum hjá okkur báðum. Og vináttan fölskvalaus. Bestu kveðjur í morgunsárið, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þetta hljómar jafn vel og það lítur út!
 
Já, ekki ónýtt að hlakka til annars eins vors. Ég hlakka sjálfur til að líta óðalið augum.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online