Tuesday, October 03, 2006

 

Stefnuræða.

Hösmagi lagði það á sig í gærkvöldi að horfa á beina útsendingu frá nýbyrjuðu þingi. Og get tekið undir með Ingibjörgu Sólrúnu að stefnuræðan var nú fremur daufleg. Slakari var þó ræða véfréttarinnar frá Bifröst. Nýja formannsins í litla feluflokknum. Fólst að mestu í að snúa við alkunnum staðreyndum. Og mæra drauginn. Þetta sýnir áþreifanlega að það er nákvæmlega engin þörf á þessum rekandi draugadalli lengur. Það væri þjóðþrifaverk að sökkva honum endanlega þann 12. maí á næsta ári. Ræður þingmanna voru nú svona upp og ofan. Ég er nú líklega svolítið hlutdrægur. Fannst nú að Steingrímur sannaði enn og aftur að hann er einn albesti ræðumaður þingsins um þessar mundir. Halldór gamli Blöndal enn í kalda stríðinu. Enda systursonur Bjarna Ben. Frjálslyndir á svipuðu róli og vant er. En það er að vissu leyti ánægjulegt að stjórnarandstaðan hefur stillt strengi sína saman. Ekkert er þjóðinni nauðsynlegra en að koma þessari ríkisstjórn fyrir ætternisstapa. Það gæti vel tekist ef þessi valkostur er settur upp. Og ef nýrri ríkisstjórn þessara flokka tekst vel upp gæti frí núverandi stjórnarflokka orðið langt. Vonandi berum við gæfu til þess að svo verði.

Haustið er enn ágætt. Svolítil væta en sæmilega hlýtt. Við Kimi erum nokkuð hressir að venju. Þó er lurðuskrattinn að angra Hösmaga annað slagið. Hann er nú ekki vanur að hlaupa til læknis þó hann fái sting. Enda ekki auðhlaupið að því. Eftir að hafa farið úr vinnu um hádegi í gær og dregið sig undir sængina góðu hálfskjálfandi ákvað hann að láta reyna á þetta frábæra heilbrigðiskerfi okkar. Það varð til þess að komast að því hver hans heimilsdoktor er. Ætla að reyna að fá sýklalyf til að drepa þessa pestarbakteríu endanlega. Hringi svo í MS til að fá staðfestingu á hvað mér verður byrlað. Það er alltaf betra að hafa vaðið fyrir neðan sig eins og þar stendur. Bestu kveðjur krúttin mín öll, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online