Monday, October 16, 2006

 

Inn úr kuldanum.

Norðanrok og lágt hitastig. Hösmagi með sultardropa eftir útiveru. Fyrsti vetrardagur á laugardaginn og skammdegismyrkrið grúfir yfir. Gott að koma inní hlýjuna aftur. Undirritaður var nú bara að viðra sig aðeins. Engar persónunjósnir. Og líklega er Hösmagi ekki nógu merkileg persóna til að verða hleraður. Kjaftar hvort sem er frá öllum skoðunum sínum hér á vefnum. En hann er örugglega á skrá hjá CIA. Og FBI. Labbaði einu sinni úr Hafnarfirði til Reykjavíkur með herstöðvaandstæðingum. Mætti sendiráðsmanni sem myndaði hvern einasta göngumann. Örugglega flott mynd af mér í safni mynda af glæpahyskinu. Læt mér það í léttu rúmi liggja. Kannski er ég búinn að skrifa nóg um persónunjósnirnar. En alltaf er nýtt og nýtt að koma í ljós. Þessi rannsókn er bara kák og fúsk. Það má til dæmis alls ekki vitnast hver hleraði hvern. Véfréttin sammála Geir. Þar komu Gissur og Geir, Gunnar, Héðinn og Njáll. Guðni virðist þó ekki vera sammála þeim. Kemur mér ekki á óvart. Vont að Guðni skuli vera í liði með þessum mönnum. Finnst hann eigi ekki heima þarna.Spá mín er sú að ekkert muni misjafnt vitnast um njósnarana fyrr en þessi ríkisstjórn geyspar golunni. Það sem nú er verið að gera er sýndarmennskan ein. Svona eins og Þór Whitehead væri falið að segja okkur þetta allt. Þvílík endaleysa.

Hösmagi hefur átt náðuga helgi. Skrapp í Kópavog á laugardag og kom aðeins við hjá skáldinu á Njálsgötu. Hvorttveggja ánægjulegt að venju. Hélt svo aftur eftir nýja snilldarveginum Sturlu heim á Selfoss. Þar sem fjármununum er sóað í tóma dellu. Vegurinn enn hættulegri en nokkru sinni áður. Skyldi nokkur þjóð önnur hafa svona mann sem samgönguráðherra. Hann verður vonandi leystur frá störfum eftir næstu kosningar. Alveg rakið að senda hann til starfa hjá Umferðarstofu. Þar yrði hann fremstur meðal jafningja. Ykkar Hösmagi, hress á mánudagsmorgni.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online