Tuesday, October 10, 2006

 

Kommentin.

Kommentin eru hluti af bloggiðjunni. Bloggarar verða, að ég held, nokkuð kátir þegar þeir fá smáviðbögð við skrifum sínum. Ég ætla að þakka nafna mínum sérstaklega. Og það er rétt hjá honum að fólk virðist nú frekar halda að sér höndum í þessu nú um stundir. En ég vona samt að ég verði ekki alsíðasti móhíkaninn. Ég fór nú að glugga í kommentin í gær. Sum eru heilar ritgerðir. Önnur stutt og laggóð og allt þar á milli. Brenndi sokkurinn skilaði heilmiklu. M.a. þessu:

Sokka brenndi sá er gaf út
sérstætt rit með mér, ó því
er költið stóra heimti á haf út
hestaflaknúinn Cherokee.

Ég hef nú bloggað mikið um uppáhalds sumariðjuna, veiðiskapinn. Eftir reisu í Borgarfjörðinn síðla sumars, í dalinn þar sem áin litla rennur fékk ég þetta komment:

Klukkan 11.15 aðeins að breyta um stað
og eigra í skyndi, líkt og brjálæði tekinn
að fláa þar sem fiskurinn lokkast að
fagurri, lítilli túpu, nýr og þrekinn.

Og svo var ósköp ljúft að fá gullverðlaun og hamingjuóskir frá skáldinu mínu eftir Söknuðinn 15. mars.
Sumum finnst nú hálfbjánalegt að vera með einskonar dagbók um sjálfan sig á netinu. Ég lít nú ekki svona á þetta. Held að margt annað sé nú hálfu bjánalegra.
En að öðru. Ég var að þvælast á vefjum byggðalagsins í gær. M.a. stokkseyri.is. Þar er verið að lýsa eftir höfundi brags frá miðri síðustu öld. Kosningabrags. Ég ætla að hnupla einni vísunni frá höfundi þessa ágæta brags og tileinka hana ráðherrunum í núverandi ríkisstjórn.

Nú þegar valda sígur sólin
setur að hroll og skjálftaflog.
Fá eru í að skríða skjólin
skrifað er allt á syndavog.
Hópurinn fullur hugraunar
horfir nú fram á kosningar.

Þeir eru nú þegar gripnir örvæntingu. Enda ástæða til þess. Vonandi verður uppskeran í samræmi við sáninguna.

Mildur andblær úti 10 gráður. Mér kom í hug upphaf að ljóði sem ég orti einu sinni fyrir margt löngu...

Það er dásamlegt þegar depurðin hverfur á braut
eins og dögg fyrir sólu og gleðin ríkir á ný
og aftur strýkur um vanga vorgolan hlý........

Þó myrkrið sé svart úti er Hösmagi kátur og hress. Við Raikonen sendum að venju góðar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Gott að allir eru kátir og hressir. Kveðja frá meðstjórnanda, sem er ennþá næstum að verða búinn í hafaríinu...
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online