Saturday, October 28, 2006

 

Sköpun og valfrelsi.

Nú eru prófkjör. Kraftmikið fólk vill á þing. Skapandi með valfrelsið í frontinum. Svo er það ábyrgt, hefur reynslu til framtíðar og bókstaflega útbólgið af gáfum. Einhver ungur kurteis maður hringdi í mig í gærkvöldi. Auðvitað þurfti ég að vera að éta rétt þegar þetta gerðist. Þetta var svona agent. Fyrir Björgvin Sigurðsson sem er mjög bólginn af reynslu. Kraftmikill forustumaður til framtíðar. Ég sagði agentinum að ég ætlaði ekki að kjósa SF. Hann lét krók koma á móti bragði og sagði að prófkjörið væri öllum opið. Ég sagði á móti að mér dytti ekki í hug að fara að hjálpa SF við uppröðun á listann og stæði nákvæmlega á sama um hvernig hann væri. Með því lauk samtalinu. Þetta er líklega lýðræðið eins og það á að vera. Unga fólkinu boðið uppá á öl í Pakkhúsinu. Og snittur. Svo það geti raðað rétt. Sannarlega ekta lýðræði, eða hvað. Lýðræði peninganna. Þar sem krónurnar telja en ekki manngildið. Og svo er íhaldið næst. Þar sem sumir telja það sér til gildis að hafa skrautfjaðrir á sakavottorðinu. Í stöðugri betrun en keppinautarnir geta alls ekki orðið að betri mönnum.Og af hverju í ósköpunum er Eyþór Arnalds ekki í þessu prófkjöri. Hann hefur nú töluvert til að státa af og í alveg óstjórnlegri betrun við að koma skikki á dómgreindina. Mér er svo lítið um þetta lið gefið að það hálfa væri nóg. Maður getur ekki einu sinn vorkennt því. Það versta er þó að fá aldrei stundlegan frið fyrir sjálfbirgingshættinum. Allir fjölmiðlar uppfullir af upphrópunum kanditanna um eigið ágæti. Og nokkrir frændur og vinir leika undir. Kannski ég fari bara í betrun og reyni fyrir mér einhversstaðar. Myndi sóma mér andskoti vel í 13. sætinu. Bestu kveðjur úr logni og 7 gráðum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online