Wednesday, October 04, 2006

 

Vindlar og kynlíf.

Ég var að lesa um nokkra eldgamla skarfa í einhverju héraði á Kúbu. Þeir eru svona 100 ára og þar yfir. Þeir segjast hafa lagt brennivín til hliðar en drekka því meira af kaffi. Og reykja vindla. Svo ku þeir stunda kynlíf nokkuð stíft. Lykillinn að langlífi og góðri heilsu. Þetta er kannski vert allrar athygli. Svona að hluta til á þetta nú við um lífsstíl Hösmaga. Kannski verður hann bara hundgamall. Það er alltaf gaman að lesa svona fréttir þó ekki sé nú mark takandi á öllu. Margt getur skemmtilegt skeð eins og þar stendur.
Fjármálaráðherrann kynnti nýja fjárlagafrumvarpið á Selfossi að þessu sinni. Það má reyna allt. Hann langar að verða fyrsti þingmaður sunnlendinga. Svo er líka Sparisjóður hérna. Það eru margir tilkallaðir en fáir útvaldir hjá íhaldinu í þessu kjördæmi. Það er að vísu með ólíkindum hvað hinir venjulegu flokksmenn þess hér láta bjóða sér. En það er að sjálfsögðu höfuðkostur á sumum frambjóðendanna að þeir eru í betrun. Alveg sérstaklega góðir menn. Miklu betri en þeir voru áður. Og enn betri en allir hinir. Kjósendum í komandi prófkjöri er mikill vandi á höndum. Slíkt er nú mannvalið. Kannski vantar bara oddvitann í Árborg?
Hitinn hér er nú bara 0,3 gráður samkvæmt veðurstöðinni hans Palla Bjarna. Logn, og myrkrið grúfir enn yfir. Enn að hugsa um að skjótast í Landmannalaugar og spáin er nokkuð góð fyrir næstu helgi. Og ekki sakar að hafa Herconinn með í farteskinu. Hæfilegur endir á ágætu sumri.
Hösmagi er að hressast. Hitti á andskoti góðan doktor í gærmorgun. Skrifaði uppá sýklalyf sem vonandi grandar þessari bölvaðri pestarbakertíu sem verið hefur að angra karlgarminn. Vonandi enn meiri betrun framundan en nokkurntímann hjá hinum vígreifu frambjóðendum íhaldsins.
Við Kimi sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online