Wednesday, April 26, 2006

 

Þunnt er móðureyrað...

segir í gömlu máltæki. Þegar Hösmagi kom heim úr vinnu s.l. þriðjudag var hann óvenjudasaður.Sofnaði snemma. Um hálftólf rumskaði hann við hljóð sem hann hafði heyrt áður. Snéri sér á hina hliðina og hugðist sofna aftur. En hljóðið heyrðist á ný, ámátlegra en fyrr. Og það stemmdi allt. Kisi var ekki innandyra. Hafði laumað sér út um svefnherbergisgluggann og fetað sig eftir örmjörri syllunni út á svalirnar. Honum var hleypt inn og hann tók strikið að kassa sínum á baðherberginu og mé þar. Þetta er sem sé vel upp alinn köttur og auðvitað flökraði ekki að honum að míga á svalagólfið. Fékk sér svo að éta og kom sér þægilega fyrir við hlið fóstra síns.Móðirin vaknar við kvak barns síns af því móðureyrað er þunnt. Sama gildir um kattarfóstra.
Hjólið góða komst ekki í hús hjá nýjum eiganda á þriðjudaginn eins og til stóð. Það þurfti að hlaða rafgeyminn. Í gær var leiðindaveður fram eftir degi. Svo glaðnaði til. Hösmagi sótti nýja vélfákinn í búðina. Setti hjálminn á höfuð sér, settist á bak og brunaði af stað. Gekk bara annkoti vel. Að vinnu lokinni var svo haldið heim í Ástjörn. Aðeins búið að rútta til í bílskúrnum og búa til hæfilegat pláss fyrir hestinn í öðru horninu innanvið dyrnar. Þar unir hann sér nú við hlið stórabróður. Bandaríska eðalvagnsins Jeep Grand Cherokee. Eins og veðrið er núna er allt útlit fyrir að þetta nýja hross verði viðrað á ný er Hösmagi heldur til starfa rétt fyrir klukkan 9. Hitinn nær kannski tveggja stafa tölu um helgina og þá verður hugað að frekari reynsluakstri. En það er vissara að gæta að sér. Hér þarf að tileinka sér nýja takta. Hestur þessi er reyndar sjálfskiptur eins og jeppinn góði. En lappir knapans eru bara kyrrar. Þú gefur í með hægri hendinni og bremsar með báðum höndum. Eftir að hafa ekið bifreiðum í 45 ár þarf að temja sér nýja siði. Þetta venst örugglega fljótt. Ég lærði strax nokkuð af þessum 4 km sem ég ók þessu vélhrossi í gær. Mér þykir ákaflega vænt um kommentin sem ég hef fengið í tilefni af þessu framtaki. Og þegar upp verður staðið er ég viss um að spara upp andvirði þessa fararskjóta á ótrúlega skömmum tíma. Svo læt ég taka af mér mynd í dag. Þar sem ég sit á Ventunni. Með hjálminn góða og albúinn til stórræða. Sendi svo myndina til vina og vandamanna sem hafa netfang. Þá geta þeir séð þessa dýrðartvennu. Hjólið er reyndar ljósblátt á litinn. Fyrir mér er það einfaldlega litur himinsins. Minnir á fegurð hans. Nóg að sinni, ykkar einlægur og hæstánægður Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online