Wednesday, April 19, 2006

 

Vespa.

Gleðilegt sumar gott fólk. Nýr vinnufélagi minn á fasteignasölunni sagði mér í gær frá farartæki sem fengist keypt hér á staðnum. Þetta er lítið bifhjól sem lengi hefur gengið undir nafninu vespa. Ósköp öfundaði ég oft mennina sem ég sá í gamla daga á svona hjólum. Þetta hjól er framleitt í bandaríkjunum en ég man ekki nafnið. Um leið og vinnu lauk fór ég beint í búðina að skoða þennan grip. Og ég varð strax heillaður af honum. Hjólið er eldrautt á litinn. Úr því það var ekki Vinstri grænt var þetta að sjálfsögðu næstbesti liturinn. Vélin er 50 rúmsentrimetrar og þú kemst a.m.k. 50 km á einum bensínlítra. Hjólið nær rúmlega 60 km hraða á klukkustund svo maður yrði nú ekki lengi að renna niður á Eyrarbakka. Hjálmur fylgir og yfirbreiðsla. Og hjólið kostar kr. 195.000 Bílprófið dugar til að mega aka því. Það er með rafstarti og þjófavörn. Afgreiðslumaðurinn í Bílanausti tjáði mér að hjólin væru uppseld í bili en von væri á þeim aftur. Þeir hefðu reiknað með að selja svona 15 hjól í sumar en væru nú þegar búnir að selja 20. Ég svaf á þessu í nótt. Í fyrramálið ætla ég í búðina og panta mér svona vélknúinn reiðhest. Nóg pláss fyrir hann í bílskúrnum. Þetta verður svar mitt við hækkun olíumafíunnar á bensíninu. Það hækkar nú um 3 kr. á nokkurra daga fresti. Það verður dásamlegt að koma akandi á þessum farkosti á bensínstöðina og segja bara: Fylla. Ég gæti ekið allan hringveginn fyrir 3.500 kr. Hvernig líst ykkur á? Ég færi á hjólinu í vinnuna alla góðviðrisdaga. Með þennan fína hjálm á hausnum. Og eins og þið vitið eru fáar brekkur á þjóðvegunum hér á suðurlandi. Nánast bara ein á allri leiðinni austur á Höfn í Hornafirði. Svo myndi ég bara kveikja mér í vindli þegar mér þóknaðist. Ekkert reykbann eins og í nýju bifreiðinni Hösmaga. Svo verður líka djöfull töff að fara á hjólinu út fyrir á að veiða. Æki svo stoltur heim með laxinn dinglandi utan á hjólinu. Auðvitað er andvirði hjólsins nokkrir peningar. En það sparast líka peningar á að nota það. Jeppinn er dásamlegur. Og ég er ákaflega ánægður með að hafa keypt hann. Vélin er 114 sinnum stærri í honum en hjólinu. Hann er u.þ.b. 5 sekúndur uppí hundraðið. Þessvegna finnst mér eiginlega samræmi í því að eignast hjólið. Verðið er gott. Svona eins og einn keppur í sláturtíð. Er þetta ekki bara snjallræði hjá mér? Bið að heilsa ykkur krúttin mín, ykkar Hösmagi, hugsandi um hjólhestinn rauða.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online