Tuesday, April 18, 2006

 

Úti er vetur...

samkvæmt almanakinu. Orðið albjart en lítið bólar á vori. Hitastig 0,2 gráður. Vindhraði 1,3 m/sek., varmi sólar 21 W/m2, loftþrýsingur 1002,8 hPa, uppgufun 0,05 mm og loftraki 84%. Þetta er allt samkvæmt litlu veðurstöðinni að Reynivöllum 4, sem er nú hérna rétt hjá mér. Eigandi þessarar stöðvar er Páll Bjarnason verkfræðingur. Ég lýsi ánægju minni yfir þessu framtaki hans. Mjög skemmtilegt fyrir þá sem hafa áhuga á þessum hlutum.
Ég var að hlusta á Árna Mathiesen fjármálaráðherra í útvarpinu. Ekki veit ég hvað hann er að vilja í þessu ráðuneyti. Hann mun vera dýralæknir, menntaður í Edinborg. Ég held að blessuð dýrin hefðu frekar átt að njóta starfskrafta hans en við mennirnir. Hann lemur hausnum við steininn eins og reyndar allir hinir ráðherrarnir. Þeir tala um verðbólguskot. En þeir vilja alls ekki hlusta á ráð skynsamra manna um neinar aðgerðir. Dóri sagði í gær að fólk ætti bara að halda sig á mottunni og vinna til að geta greitt skuldir sínar. Skuldirnar sem hann er að hækka sjálfur með alkunnum aulahætti. Ég greiddi 68.000 af skuldum mínum vegna íbúðarinnar núna í apríl. Við þessa greiðslu hækkaði skuldin um 130.000 krónur. Minnir mig á söguna af þursinum. Þegar hausinn var höggvinn af spruttu óðara fram 2 í staðinn. Við hreinlega verðum að losa okkur við þessa menn sem fyrst. Senda þá burt af alþingi. Þeir eiga að leita sér að annari vinnu. Og ef þeir fá ekki vinnu geta þeir lifað af þessum 80.000 krónum á mánuði sem þeir skammta hinum atvinnulausu. Sumir þeirra hafa líka sagt að það sé enginn vandi að lifa á þeim launum. Það væri sannarlega áhugavert að lofa þeim að standa við orð sín. Það væri smávottur um þroska þjóðarinnar.

Nú er orðið nokkuð ljóst að ekki kemur fram óháður listi við bæjarstjórnarkosningarnar hér. Kannski rætist spá mín um fall bæjarstjórnarinnar. En þó hún sé afar slæm væri það en verra að fá hreinan meirihluta íhaldsins yfir sig. Og Eyþór Arnalds sem bæjarstjóra. Hann hefur sjálfur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn að taka starfið að sér. Það væri mjög fróðlegt ef þessi maður upplýsti nú kjósendur rækilega um stjórnunarafrek sín á undanförnum árum. Honum ætti að vera það í lófa lagið. Hann fer nú mikinn í greinaskrifum í blöðum hér. Talar fjálglega um umbætur og framfarir. Étur aðallega upp hugleiðingar um ýmis baráttumál okkar Selfyssinga sem við höfum talað um lengi. Og vorum byrjuð á löngu áður en þessi stórstjarna vissi hvar Selfoss var á hnettinum. Úr því sem komið er er eina von okkar framfarasinna hér í sveitarfélaginu að kjósa lista Vinstri grænna. Flokkinn sem enga ábyrgð ber á núverandi bæjarstjórn. Verði flokkurinn í oddaaðstöðu að kosningum loknum er von til þess að hægt verði að gera góða hluti. Og þá er hægt að koma í veg fyrir að bæjarstjórinn verði sjálfgefinn.

Mínar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já. allir Selfyssingar með vott af skynsemi og sjálfsvirðingu hljóta að sjá í gegnum framapot Todmobile-lúsersins sem Flokkurinn stuggaði vandræðalega til hliðar hér um árið í Reykjavík. Rétt sem þú segir, að hann er grunsamlegur þessi skyndilegi áhugi selló-popparans á hag Selfyssinga og meira en lítið yfirborðskenndur. Ekki öfunda ég ykkur af þessari ormétnu sendingu sem höfuðborgin vildi ekki sjá.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online