Thursday, April 27, 2006

 

Biðstaða.

Bömmer. Nýi vélhesturinn fer ekki í gang. Eftir ítrekaðar tilraunir til gangsetningar í gærmorgun varð undirritaður að grípa til bifreiðar. Og búðarlokunum í Bílanausti mistókst þetta einnig. Hjólið verður sótt á eftir og mér er það að sjálfsögðu mikilvægt að þetta komist í lag í dag. Strax í dag eins og segir í þekktum texta. Útlit fyrir ljúft veður um helgina og svo er hinn lögbundni frídagur á mánudaginn. Heimsótti systur mína og mág í gærkvöldi. Saltkjöt og baunir með öllu tilheyrandi. Gulrófur, kartöflur og síðast en ekki síst, soðkökur. Afmælisdagur systursonar míns sem hefði orðið 36 ára í gær. Aðeins 6 dagar á milli þeirra frænda, Magnúsar og hans. Ég hef sagt það áður að mágur minn er aðdáunarverður maður. Berst nú við erfið veikindi af einstöku þolgæði. Vonandi hefur hann betur. Lék á alls oddi í gærkvöldi og þetta var bara sérlega indælt kvöld. Ingibjörgu systur minni leist mjög vel á nýju fjárfestinguna. En sú eldri, Nína, spurði hvort ég ætlaði að drepa mig á þessu. Það er einmitt það sem ég hef minnstan áhuga á. Ætla að fara varlega og gæta vel að lífi mínu. Og limum. Ég á þennan fína bakpoka sem gott er að hafa meðferðis þegar haldið verður í leiðangra á hjólinu. Það er líka ágætt geymsluhólf undir sætinu. Mér verða allir vegir færir á þessum ágæta farkosti. Raikonen að viðra rófu sína í vorblíðunni. Dumbungur en sæmilega hlýtt. Sem sagt, ekkert til að kvarta yfir. Nema náttúrlega íhaldið, framsókn og samfylking. Njótið dagsins, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online