Tuesday, April 04, 2006

 

Haminguhross.

Nú er ég andleysið uppmálað. Það þýðir ekkert að blogga bara fyrir bloggið. Kannist kannski við þetta? Apríl hefur haldið innreið sína með blöndu af árstíðunum fjórum. Hiti um frostmark og örlítill vindblær strauk vanga Hösmaga á morgungöngunni. Og feld Raikonens við rannsóknir á veiðilendunum hér sunnan við blokkina. Liggur nú í gluggakistunni. Á öðru ári æfi sinnar. Helga kallar hann enn kettling. Líklega sannmæli. Mikið fyrir leiki. Og þegar mikið hefur gengið á er gott að leggja sig. Lífið gengur sinn vanagang hér. Þessi endalausa bylgjuhreyfing tilverunnar. Sama hvert sviðið er. Hæðir og lægðir, öldudalir og toppar. Og það verður þannig áfram. Rólegt yfir bæjarpólitíkinni enn þó stutt sé í kosningarnar. Verður kannski bara stutt og snörp lota. Það gilda önnur lögmál í bæjarpólitík en í landsmálapólitíkinni. Oddviti vinstri grænna hefur sagt að íhaldið sé höfuðandstæðingur sinn í pólitíkinni. Mér líst þó betur á a.m.k. 3 af 4 eftstu mönnum íhaldsins hér en þessa langþreyttu fulltrúa samfylkingar og framsóknar. Þeim veitti sannarlega ekki af hvíld næsta kjörtímabilið. Ef vinstri grænir ætla fyrirfram að útiloka samstarf við sjálfstæðismenn að kosningum loknum fá þeir ekki mitt atkvæði. Það gilda einfaldlega allt önnur lögmál þar en á landsvísu. Og ekki er nú neinum allsvarnað. En þau eru ekki sérlega stór í sniðum afrekin núverandi meirihluta. Ef vinstri grænir fá mann kjörinn, sem ætti að vera auðvelt ef rétt er haldið á spilunum, og íhaldið fær 4 menn þá ættu þeir grænu að setjast niður með höfuðandstæðingnum og kanna stöðuna vel. Með því að útiloka slíkt fyrirfram eru þeir að mála sig út í horn. Það eina sem má heita tryggt í þessum kosningum er að nýja bæjarstjórnin getur ekki orðið verri en sú er nú ræður ríkjum. Ef farið yrði í samstarf með sjálfstæðismönnum er mikilvægt að gera góðan og skotheldan málefnasamning. Og ef íhaldið fer út af sporinu þá er bara að þrýsta á hnallinn. Og að sjálfsögðu má alls ekki gera oddvita íhaldsins að bæjarstjóra. Það er lágmarkskrafa að menn geti stjórnað sjálfum sér áður en þeim er falið að stýra heilu bæjarfélagi. Nóg um kosningar að sinni.
Páskar nálgast óðfluga. Ljúft frí frá amstri annara daga. Reyni að magna seið fyrir góðu veðri. Þá ganga allar dásemdirnar upp. Herconinn klár og hugurinn stefnir til að láta hann sveigjast. Og líklega fer Hösmagi norður í land. Löngu kominn tími á að rifja upp gömul og góð kynni af norðurslóðum. Akureyri og Svarfaðardalur. Kona og hestar. Hamingjuhross. Upp úr næstu helgi ætti páskaspáin að liggja fyrir. Þá tekur Hösmagi ákvörðun um framhaldið. Fiðringurinn er bara þægilegur. Ekki þessi grái. Bestu kveðjur að sinni, ykkar Hösmagi, hamingjuhrossið mikla.

Comments:
Ekki ætlarðu þó að segja mér að þú sért orðinn pólitískt skotinn í honum Eyþóri Arnalds?
 
Er nú líklegt að ég sé pólitískt skotinn í þeim sem ég tel að ekki geti stjórnað sjálfum sér, hvað þá heilu bæjarfélagi?
 
Nei, það hefði ekki verið þér líkt. Vona að sem flestir Selfyssingar (Árborgingar(?)) séu sama sinnis.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online