Sunday, April 16, 2006

 

Páskar.

Það er voðalegt að segja frá því að mér hefur varla komið Kristur í hug þessa heilögu daga. Verið ötull í aukastörfum hér heimafyrir. Menn verða að gera hreint fyrir sínum dyrum og svo verða þeir líka að gjalda keisaranum það sem keisarans er. Og það er margt skrítið í kýrhöfðinu. Nú hækkar bensínið í dælunum hjá olíumafíunni. Gamlar birgðir á nýju verði. FÍB hefur lagt til að ríkið slaki tímabundið á skattheimtunni sem er mikil af þessum dýra vökva. Svar ríkisstjórnarinnar er skýrt. Við greiðum ekki niður olíukreppuna. Þetta myndi þó hægja á verðbólgunni sem nú virðist kominn í fluggírinn. En auðvitað er ríkisstjórninni nákvæmlega sama. Hún er nú á sínu banabeði hvort eð er. Ég hef nefnt það hér áður að þegar bensínið hækkar hækka öll lán landsmanna hvort sem þeir nota bensín eða ekki. Sama lögmál gildir líka um brennivínið. Ég sá Dóra litla í gær. Hélt ég hefði heyrt í Pálma Gestssyni fyrir utan Nóatún, leit við og sá þá að þetta var bara Dóri. Líklega að tala við eitthvert barnabarn sitt. Vonandi hefur hann það fínt um páskana. Sumir eru að halda því fram nú um stundir að hann vilji kosningar strax í haust. Þá yrði sumarið notað til að fá galdramenn til að búa til nýja mynd af flokknum. Ef það yrði dregið fram á næsta ár yrði nefnilega ekkert eftir af þessum flokki. Það er meira að segja talið vonlaust að þeir fái mann kjörinn í borgarstjórnina. Og þó er Alfreð hættur. Ég syrgi nú ekkert sérstaklega þó flokkurinn fái sömu örlög og geirfuglinn.
Ég hélt til stangveiða í gær. Heldur kalsamt og snjór við Tangavatn. Tókst einungis að veiða einn urriða. Líklega um 1 kg á þyngd. En þetta var svo sem ágætt. Prófaði hraðastillinn á jeppanum í fyrsta sinn. Nokkuð þægilegt. Ef maður hefði lika sjálfstýringu gæti maður lagt sig þennan spotta.
Og kisi minn góður var alsæll með afganginn af rækjunum. Svo verður urriðaveisla í kvöld. Gott að eiga frídag á morgun líka. Sumardagurinn fyrsti á fimmtudag. Bíð sannarlega eftir vorinu sem enn fer með hraða snigilsins. Enn kominn norðanátt og líklega best að fleygja sér aðeins undir sængina. Gleðilega páska, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online