Sunday, April 09, 2006

 

Slagveður.

Langþráð og unaðslegt slagveður er skollið á. Það var virkilega notalegt að viðra sig í morgun.Hitinn 8 gráður og gott að láta regnið bylja á andlitinu. Svo styttir upp og páskaveðrið verður gott. Það er semsagt grár mánudagur, svolítið blautur en ágætur samt. Meira að segja yfirkisi dansaði af ánægju í rigninunni. Er þó sagt að þessari dýrategund sé nú ekki beinlínis vel við vatn. En feldurinn er fallegri á eftir og sálarlífið miklu betra. Það verður bara ánægjulegt að halda til vinnu á eftir. Aðeins 3 vinnudagar í vikunni og þá taka brauð og leikir við. Ætla ekkert að ergja mig á bæjarpólitíkinni þessa góðu daga sem framundan eru. Ekki orð um samfylkinguna. Allavega ekki nema sérstakt tilefni gefist. Og ekki bölvað íhaldið heldur. Helgin búin að vera ágæt. Lauk við framtal skáldsins og heitkonunnar. Verðandi tengdadóttur ætla ég rétt að vona. Ég er sennilega ákaflega heppinn maður varðandi tengdadætur. Þær eru nú ekki margar sem fara í fötin hennar Boggu minnar. Og mér líkar sérlega vel við Helgu. Passar skáldið fyrir mig. Og mér er nú ekkert voðalega illa við hann Svavar. Yfirtengdasonurinn er bara ágætisnáungi. Ég skrapp aðeins niður á strönd á laugardaginn. Gott að hnusa aðeins af sjónum. Nánast ládeyða og skyggnið sérlega gott. Það er orðið erfitt að spá í veðurfarið hér í seinni tíð. Hef þó á tilfinningunni að þetta verði gott sumar. Og margar hreistraðar verur verið fiskaðar upp úr djúpunum. Í byggð og óbyggðum. Öll veiðileyfi komin á þurrt og nú er bara að bíða eftir ræsingunni. Sannarlega tilhlökkunarefni eins og jafnan áður. Ykkar Hösmagi, með höfugan ilm vorsins í nösunum.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online