Saturday, April 08, 2006

 

Turnspírur.

Nú er bæjarstjórnin komin á flótta. Hefur lýst því yfir að turnarnir 16 hæða verði ekki byggðir við brúarsporðinn. Vonast sennilega eftir nokkrum atkvæðum í staðinn. Hún hefur, eins og það er orðað, leyst til sín eignir Miðjunnar í miðbænum. Eða þorpinu öllu heldur. En hér er auðvitað ekki allt sem sýnist. Mættum við bæjarbúar eða þorparar fá að vita hvað þetta kostar? Dettur einhverjum í hug að eðalkratinn og félagar hans hafi ekki fengið nokkuð ríflega fyrir snúð sinn? Og gæti verið að samfylkingin fengi smáaur í kosningasjóðinn? Þessari bæjarstjórn er til alls trúandi og við verðum að losna við hana í kosningunum sem framundan eru. Framboðin eru orðin 4 en framboðsfrestur er ekki útrunninn. Ég er viss um að óháður listi með gott fólk innanborðs fengi mörg atkvæði í kosningunum. Kannski er hann í burðarliðnum.Við skulum sjá hvað setur.
Sólin skín nú glatt hér. Og Raikonen sefur í rúmi sínu, þ.e. baðvaskinum. Hvílir lúin bein eftir erfiði morgunsins. Fyrsta framtal Hösmaga ehf. flaug á öldum ljósvakans áleiðis til skattyfirvalda. Og alla leið reyndar því þau hafa staðfest móttökuna. Undirritaður lét setja sumardekkinn undir einkabifreið sína og skáldsins í morgun. Hún hefur líka fengið skoðunarmiðann 07. Ágætt. Veðurhorfur eru ekki mjög góðar fyrir norðurland í næstu viku. Því óvíst um landkönnum Hösmaga þangað. Spáð hita vel yfir frostmarki hér sunnanlands svo ekki er ólíklegt að föstudagurinn langi verði nýttur á sama hátt og stundum áður. Svo er nú líka óhemjuljúft að liggja svolítið í leti þessa frídaga. Sumir kvíða fyrir öllum hátíðum vegna áþjánarinnar sem felst í öllum skylduheimsóknum, átveislum og endalausum þvælingi. Vonum samt að sem flestir njóti páskanna. Undirritaður hyggur gott til glóðarinnar. Sæl að sinni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online