Sunday, April 30, 2006

 

Bæjarstjórnin.

Enn er bæjarstjórn Árborgar að vinna ný afrek. Nú hafa bæjarfulltrúar framsóknar og samfylkingar lagst á hnén og beðið sveitarstjórn Ölfushrepps að halda áfram eyðileggingunni og skemmdarverkunum á Ingólfsfjalli. Skipulagsstofnun leggur til að þessum hryðjuverkum gegn fjallinu verði hætt. Það verður fróðlegt að sjá hver niðurstaða íhaldsins í Þorlákshöfn verður. Og hver er stefna íhaldsins hér? Nauðsynlegt að fá að vita það fyrir komandi kosningar. Vinstri grænir eru að sjálfsögðu á móti frekari eyðileggingu. Fólkið í þeim flokki og fylgismenn hans aðrir eru, að því er virðist, þeir einu sem eru meðvitaðir um hversu nauðsynlegt er að móta hér ákveðna umhverfisstefnu. Hvað haldiði að sagt yrði ef borgarstjórnin í Reykjavík krefðist þess að ráðist yrði á Esjuna af því það væri nauðsynlegt fyrir áframhaldandi uppbyggingu í Reykjavík? Hún yrði auðvitað púuð niður. Þetta er enn ein sönnunin um að þessi bæjarstjórn er algjörlega óhæf. Ég ætla svo sannarlega að vona að henni verði refsað rækilega í kosningunum. Ég er hreinlega farin að halda að bæjarfulltrúarnir hafi varla gripsvit. Við skulum gefa þeim sem allra flestum langt frí. Þeim gæfist þá ef til vill tími til að hysja upp um sig brækurnar sem þeir eru nú með á hælunum.
Bláa vespan var tekin til athugunar í gær. Þeir komu á rauðri vespu og skiptu við mig. Það rigndi allmikið í gær svo ég hélt mig að mestu innivið. Nú skín sólin á ný og ég ætla í smárúnt á þeirri rauðu. Draumnum hennar Helgu minnar. Þetta eru frábærir farkostir a.m.k. kosti til skemmri ferða. Og í góðu veðri til lengri ferða einnig. Vildi að ég gæti tamið Raikonen til að sitja á hjólinu með mér. Man eftir Ástrala á mótorhjóli sem ævinlega hafði köttinn sinn með sér. Dúðaður og með gleraugu eins og eigandinn. Mynd af þeim í sjónvarpinu fyrir nokkrum árum. En því miður tel ég litlar líkur á að Kimi myndi samþykkja þetta. Hann er nú á snuddi sínu hér utandyra. Vinur hans Pési mathákur sefur við baðvaskinn. Rak hann upp úr vaskinum svo ég fengi laugað hendur mínar. Þegar ég kem bæjarstjórninni aftur úr huga mér verður þetta góður dagur. Bestu kveðjur krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, ljótt ef satt er. Ætli maður verði þá bara ekki að vona að VG farnist sem best í Árborg, fyrst engum öðrum er treystandi fyrir Ingólfsfjallinu. Einhver ætti að gefa þessum bæjarfulltrúum Draumalandið hans Andra Snæs, það myndi kannski hreyfa við þessum framsóknarmönnum allra flokka.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online