Sunday, April 16, 2006

 

Brandarakarl.

Biskupinn yfir Íslandi messaði yfir lýðnum í gær. Mér hefur reyndar aldrei litist sérlega vel á þetta atvinnugóðmenni. Það er ekki einu sinni hægt að hlægja að honum. Nýjasta kenning hans er sú að páskahátíðin sé bara brandari guðs. Og dæmisögur Jesú eru skrýtlur. Miskunnsami samverjinn hefur líklega einungis verið að gera að gamni sínu þegar hann framdi líknarverkið á náunga sínum. Held helst að þessi herra ætti að finna sér eitthvað annað að gera. Kannski hefur einhverjum þótt þetta fyndið. Það er líka til fólk sem hlær alltaf á vitlausum stöðum eins og skáldið sagði.
Við Raikonen erum báðir í sérlega góðum gír í morgunsárið. Nema hérahjartað í litla dýrinu tók stóran kipp þegar ég kveikti á nýju ryksugunni. Fjárfesti í þessu fína apparati á laugardaginn var. Og verðið. Litlar 3.900 kr. Ef ég man rétt fæ ég ekki einu sinni vodkaflösku fyrir þessa aura. Lítil og nett ryksuga og hún dregur snúruna inn sjálf. Algjör kjarakaup. Ef einhvern vantar svona áhald væri ég fús til að kaupa það fyrir hann.
Sólin er nú löngu komin upp og skín glatt. Hiti ein 2-3 stig og storminn hefur lægt. Ekki aldeilis afleitt að vakna snemma á slíkum morgni. Eftir stórátak í pappírsvinnu undanfarna daga hyggst ég leggjast í þrif hér. Brynjaður nýju ryksugunni, moppunni, hálfsjálvirka róbótanum frá síðustu jólum, ajax mintsápulegi og ýmsu öðru. Ég hreinlega hlakka til að hefjast handa. Orkan verður að fá útrás. Drullan og skíturinn eiga sannarlega ekki von á góðu núna. Og komandi vinnuvika er stutt. Fæ mér líklega frí á föstudaginn svo þá verða þetta bara 2 vinnudagar.Virkilega ljúft. Jæja góðir hálsar, rykið farið að bíða svo ég kveð að sinni, ykkar Hösmagi, heitur að morgni dags.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online