Tuesday, October 14, 2008

 

Veisluhöld.

Það var nú ekkert kreppufæði á borðum hér í Ástjörn í gærkvöldi. Ég fann poka í frystikistunni og innihaldið var humar. Ég þýddi innihaldið. Að sjálfsögðu byrjaði ég á að telja. 25 stykki og öll af stærri gerðinni. Undir kvöld setti ég humarinn í pott, saltaði hæfilega og kveikti undir krásinni. Ég þýddi rækjur handa Raikonen og hugðist sitja einn að humarnum. Kimi fékk sér af rækjunum en fylgdist náið með fóstra sínum. Þegar ég byrjaði að plokka skelina af humrinum var kisa nóg boðið. Hann varð bókstaflega trítilóður af lyktinni. Og mér varð nú ekki kápan úr því klæðinu að ætla mér að sitja einn að humrinum. Hann rann því ljúflega ofan í okkur báða. Við sitjum nú hvort eð er við sama borð og deilum saman kjörum. Sennilega verð ég nokkra mánuði að éta allan fiskinn úr kistunni. Flakaði laxinn frá fyrra ári er enn í topplagi. Reyndar á skáldið mitt nokkurt magn frá nýliðnu sumri.Því verður til haga haldið. Ég ætla líka að gera tilraunir í eldamennsku. Nú er sláturtíð og hægt að kaupa ýmsan ódýran mat.T.d. lifur sem mér finnst mjög góð steikt. Hún er líka örugglega bráðholl.
Eftir fréttum að dæma eru nú fyrirmenn þjóðarinnar í Moskvu. Rússagullið verður til umræðu í dag. Skyldi Davíð vera þarna? Kannski verður hann þjóðnýttur þar eystra. Pútín hlýtur að hafa frétt af kraftaverkamanninum sem allt veit og allt getur. Hans mun þó örugglega ekki verða sárt saknað hér. Í mínum augum er hann verri en plágurnar sjö og hefur valdið okkur meiri ömun og tjóni en nokkur annar núlifandi íslendingur. Eini jafningi hans er kannski draugurinn sem lét kræla á sér í fyrradag. Báðir holdgerfingjar þess versta sem hent hefur í íslenskum stjórnmálum.

Við Kimi erum nokkuð slakir hér heima. Ég plokkaði restina af humrinum áðan. Hann var fljótur að renna á lyktina og fóstri gaf að smakka. Svo verður framhaldsveisla í kvöld. Það er reyndar smáfiðringur í mér. Ég sá auglýst starf og tók upp símann. Í framhaldi af því sendi ég tölvupóst. Þar tíundaði ég menntun mína og alla hina frábæru mannkosti. Aldur og fyrri störf. Bíð spenntur fram eftir vikunni.
Hitinn enn vel yfir frostmarkinu. Vindur hægur og hann hangir þurr. Helst bara nokkuð vel á geðprýðinni í þessu veðri. Ég sé að þessi pistill er nr. 555 frá þeim fyrsta í Edinborg forðum. Og datt í hug bókartitill Magnúsar storms: Ætlar hann aldrei að þagna, karlskrattinn? Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Blessaður, enginn ástæða til að þagna nema síður sé. Hösmagabloggið er kannski ekki það víðlesnasta á landinu en það er nálesið og þaullesið af nokkrum. Og er ekki betra að eiga nokkra góða vini en hjörð af fíflum?
 
Rétt. Bíð spenntur eftir bloggfærslu 5555.
 
Það er örugglega rétt að betri eru fáir og tryggir vinir en fíflahjörð. Tölur eru skemmtilegar. Haldi ég sama hraða á blogginu er líklegt að pistill nr. 5555 verði skrifaður árið 2041. Þá verður undirritaður 97 ára.
 
Hösmagabloggið mun lifa af bæði Moggann og Fréttablaðið. Engin hætta á minnkandi áskriftartekjum eða yfirtökum hér.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online