Wednesday, October 22, 2008

 

Bein leið.

Ég sé að morgunpistillinn hefur skrifast á gærdaginn. Það gerir tímamunurinn. Ég fór til höfuðstaðarins á grænu þrumunni. Hitti doktorinn og hann var hress að venju. Ekkert óeðlilegt kom fram á myndunum frá því í september. Nú þarf ég ekki að mæta aftur fyrr en í september á næsta ári. Ég tel mig því vera á beinu brautinni heilsufarslega. Ekki veitir af í baráttu næstu mánaða. Ég fékk miklar þakkir frá dokksa fyrir Blóðberg. Þakkir sem þeir skáldið mitt og Siggi eiga bara einir að fá. Hann var mjög impóneraður af þessu kveri, sem átti 10 ára afmæli á árinu. Fannst þetta nánast ótrúlegt framtak af tveim menntskælingum. Hann er vel að sér í Magnúsi Ásgeirssyni og hugði gott til glóðarinnar að lesa hvað dóttursonurinn skrifaði um afa sinn. Þetta varð nú til þess að ég ætla að hafa Magnús á náttborðinu hjá mér næstu daga. Ég held að ég eigi megnið af því sem út hefur verið gefið eftir hann. Snilld hans mun lifa með íslenskum ljóðaunnendum. Sumir telja að það sé í raun miklu meiri kúnst að þýða ljóð en yrkja þau sjálfur. Líklega margt til í því. Einar Benediktsson mun hafa sagt Magnúsi ungum að ef hann ætlaði sér að verða skáld skyldi hann varast þýðingarnar. Sem betur fer hélt Magnús ótrauður áfram. Það er samt nokkuð til frumort eftir hann sem sýnir að hann var ekki síður fær í að yrkja á íslensku. Magnús dó ungur og ég kynntist honum aldrei. Bræðrum hans 4um kynntist ég hinsvegar allvel. Fluggreindir og skemmtilegir menn. Leif prófessor þekkti ég minnst. En ég minnist ákaflega skemmtilegra stunda í stofunni á Reykjum. Sérstaklega ef Ingimundur á Hæli var þar í heimsókn. Fremur lágvaxinn maður en heilabúið af sama kaliber og hjá bræðrum hans. Sigurður var einstaklega ljúfur og skemmtilegur maður. Honum kynntist ég langbest enda var hann tengdafaðir tveggja systkina minna. Mér er enn í fersku minni þegar ég kvaddi hann í banalegunni á sjúkrahúsinu á Akranesi.Hann var mitt á milli rænu og rænuleysis. Ég fann að hann vissi hver ég var og síðasta handtak okkar var hlýtt og þétt. Þrátt fyrir litla skólagöngu held ég að hann hafi verið einn mest menntaði maður í Íslandi um sína tíð.

Nú haugar niður snjó og veðurstofan spáir illviðri á morgun. Við Kimi munum örugglega halda okkur innivið.Hann sefur hvort eð er meirihluta sólarhringsins þessa haustdaga. Ég reyni að halda mér til verka. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, það væri nú ekki slæmt að hafa menn eins og Sigurð á Reykjum til að kenna okkur að haga okkur í þessu blessaða þjóðfélagi okkar nú um þessar mundir. Ég kynntist Sigurði auðvitað lítið enda hann öldungur og ég barn þessi fáu skipti sem fundum okkar bar saman en ég man þó að frá honum stafaði svona gæska og öldungsviska sem ég kunni vel að meta. Skelltu þér nú í tvítföt gamli og ræktaðu þitt gráa skegg, með staf og hatt til að fagna góðum degi!
 
Maður verður nú pínu impóneraður og hégóminn hleypur upp í manni við fréttir af þessum bókargjöfum til doktors.

Ekki státar maður víst af fleiri kjölum upp í bókahillum landsmanna. Þar hefur meðritstjóri minn skákað mér - og gott ef ekki mátað.

Gott annars að ekkert fannst. Og já, Magnús er góður. Það fannst Bubba líka, stal einu og öðru frá gamla manninum hér in ðe eitís.

Kveðjur til Kríslands.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online