Sunday, October 12, 2008

 

Sunnudagur.

Rólegur dagur og letin ræður ríkjum á bænum. Það er þó áreiðanlega ekki afleiðing þrældóms síðustu viku. Ég held að þetta gildi um köttinn líka. Hann sefur meirihluta sólarhringsins. Aftur fiskur hjá okkur í gær. Lúða og ýsa sem við gerðum okkur báðir gott af. Restin varð að Ingólfsfjalli sem ég góflaði í mig undir silfri Egils. Enn lætur veturinn ekki kræla á sér. Það er haustlegt en hitastigið rokkar á milla 2 og 10 gráða. Græna þruman stendur nú á einni bílasölunni. Það verða allir að bregðast við á einhvern máta þegar að þrengir. Minnkandi tekjur og allt hækkar og hækkar. Það versta er reyndar að þetta mun bitna mjög á ungu kynslóðinni sem nú er að vaxa úr grasi. Sennilega næstu áratugina. Við eigum að þegja því stjórnarherrarnir eru að " bjarga því sem bjargað verður". Gera samt hvert axarskaftið eftir annað. Blaðra og blaðra úti eitt. Aðgerðaleysið og hikið kostar þjóðina ómældar fúlgur hvern einasta dag. Ekkert heyrist um vaxtalækkun. Þeir ætla bara að koma til móts við okkur pöpulinn eftir bestu getu. Vinna þjóðina út úr vandanum. Þetta eru mennirnir sem hafa setið aðgerðalausir í meira en heilt ár þrátt fyrir viðvörunarorð fjölda fólks sem sáu hvert stefndi. Það nýjasta er að senda forsetann á okkur. Hann á að hugga lýðinn. Hvetja hann til dáða og efla samkenndina. Mér finnst nú svona smá fnykur af þessu. Fáir hafa nú dásamað útrásarvíkingana meira en núverandi forseti vor. Enda tíður farþegi í einkaþotum þeirra. Þjóðin á erfitt með að skilja þetta. Hún á að halda gremju sinni í skefjum. Gremjunni yfir hvernig 20-40 menn hafa með gerðum sínum undanfarin ár komið meirihluta þjóðarinnar á kaldan klaka. Það má alls ekki bíða lengi með að draga þá til ábyrgðar. Nú kenna þeir öllum öðrum en sjálfum sér um hvernig komið sé. Tala um stærsta bankarán Íslandssögunnar. Þetta eru þeir hinir sömu sem flestir búa nú í útlöndum. Og hýbýlin eru ekki í neinum kömpum. Þota hér og snekkja þar. Þegar frá líður mun þessi tími verða talinn með þeim svartari í sögu okkar. Kurlin eru ekki öll komin til grafar. Vikingarnir enn í algjörri afneitun.Sorgleg staðreynd sem þjóðin á ekki að una við þegjandi. Sökudólgar eiga ekki að vera tabú. Stjórnarliðar og framsóknarflokkurinn bera fulla ábyrgð á þessum mönnum. Og allar eftirlitsstofnanir hafa brugðist. Einkum FME og seðlabankinn.

Ég vona að við sjáum nú öll til sólar að nýju. Landið okkar er enn á sínum stað. Við skulum vona að við fáum hæfara fólk að stýrinu. Og aldrei aftur verði nokkrum snillingum leyft að spila matador með eigur okkar þannig að þjóðfélagið verði í rústum eftir nokkur köst. Ég óska þess líka að það muni aldrei henda þjóðina aftur að fá menn á borð við Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson til áhrifa.
Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, þetta er sorglegt. Held það sé sú tilfinning sem lýsi þessu best: sorg yfir því að þurfa að skammast sín fyrir að vera Íslendingur. Svo bætist allt peninga- og tímatjónið við. En svo maður reyni nú samt að líta á hið jákvæða þá að stendur maður þetta nú vonandi af sér, er ekki á leið á götuna og ekki á leið í þrot. Ég hugsa líka til þín gamli minn og vona að úr rætist með atvinnuöflun og róður á rútínumið á næstunni. Bestu kveðjur frá Tarraco, Sössi Bjössi
 
Þakka kveðjur minn kæri. Vil láta þig vita að nú get ég ekki skoðað bloggið þitt.Það bara gengur ekki. Þú verður að fikta þig á sama stað og áður. Við Kimi á leið í svefnherbergið og ég ætla að lesa Sjöwall og Wahhlöö undir svefninn.Martin Beck er alltaf góður. Þinn Hösmagi.
 
Já, skrýtið þetta með forsetann. Held að hann ætti nú að halda sig sem mest til hlés þessa dagana.

Hvaða dagskrá ætlar hann annars að bjóða upp á eftir alla múgæsinguna sem hann hefur ekki gert svo lítið í að peppa undir? Ætlar hann kannski að túra um landið á Baugsflugvélinni?
 
Gráupplagt.Jón Ásgeir yrði flugkafteinn. Svo gæti hann haft Sigurjón,Lárus, Heiðar og fleiri sem aðstoðarmenn við að stappa stálinu í lýðinn.
 
Þar kom að því að einhver var sammála mér - þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri minnst á Halldór Ásgrímsson í tengslum við þetta og var hann þó mikill paur í þessu öllu - núna stikkfrí úti í löndum eins og hinir- Gjugg í borg!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online