Friday, October 10, 2008

 

Árni í Botni....

allur rotni, ekki er dyggðin fín. Þjófabæli, það er hans hæli, þar sem aldrei sólin skín. Ég er alveg við það að æla. Vegna alls þjófahyskisins, góðgerðastarfsemi Davíðs og Dóra og afleiðinganna af verkum þeirra. Stundum er gott að vakna eftir vonda drauma. Finna gleðina yfir að raunveruleikinn er allt annar en hinn vondi draumur. Mig dreymdi ekkert í nótt. Raunveruleiki þessa dags er þó hinn sami og í gær. Kvíði og depurð yfir ástandinu. Ástandi, sem er bein afleiðing af stjórn framsóknar og íhalds frá 1995-2007. Sem betur fer hef ég aldrei kosið þessa flokka. Gagnrýnt þá harðlega. Með réttu. Þeir hafa orðið þess valdandi að þjóðfélagið er nú rjúkandi rústirnar einar. Framsóknarmenn hafa nú lagt til að seðlabankastjórar verði ráðnir á " faglegum" grunni. Það hentaði þeim nú ekki alveg meðan Steingrímur, Tómas Á. og Finnur voru skipaðir í þessa stöðu. Steingrímur hafði nógan tíma til skógræktar uppí Borgarfirði meðan hann stjórnaði í musterinu. Og uppgötvaði ástæðuna fyrir því hversu erfitt hafði verið fyrir hann að ná í Tómas í bankanum ef vel viðraði á golfvöllunum. Eins og þið vitið er ég flokkslaus maður þó lífsskoðanir mínar séu hinar sömu og verið hafa í marga áratugi. Við njótum nú ávaxtanna af samstarfi íhalds og framsóknar þessi 12 ár. Nákvæmlega ekkert væri betra fyrir okkur en að gera sjálfstæðisflokkinn áhrifalausan með öllu. Setja hann í einangrun. Flokkinn, sem hefur haft frjálshyggjuna sem trúarbrögð með þeim afleiðingum að nokkrir tugir manna hafa komið þjóðinni fram á bjargbrúnina og hyldýpið blasir við. Hnípin þjóð í vanda var einu sinni sagt. Það er ótvíræður skyldleiki með þeim nöfnum Árna í Botni og nafna hans fjármálaráðherranum. Sem í gær hélt til fundar hjá alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ekki amalegt fyrir forráðamenn sjóðsins að fá ráð frá slíkum snillingi. Skyldu bátar hans róa í dag?
Allt bendir til þess að kosningar verði á næsta ári. Fyrir þær kosningar eiga VG og SF að lýsa því yfir að flokkarnir muni starfa saman að kosningum loknum. Leggja til hliðar klisjuna um að þeir gangi óbundnir til kosninga. Sameina áherslur sínar og gleyma ágreiningsefnunum.Þá væri raunhæfur möguleiki á meirihluta þeirra. Það skásta fyrir þjóðina í þessari slæmu stöðu.

Hér er enn hið þokkalegasta haustveður. Við Kimi erum hér á litla kontornum. Annar sitjandi við tölvuna og hinn liggjandi láréttur á bakinu. Báðir nokkuð brattir. Ef vonin glatast er lítið eftir. Kimi áhyggjulaus meðan eitthvað er í döllum hans. Hösmagi er ekki í neinum uppgjafarhug. Langt í frá. Gamla máltækið að ekki gangi að gefast upp þó á móti blási er enn í fullu gildi. Megi gæfan vera nálægt ykkur í dag. Bestu kveðjur, Ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online