Saturday, October 18, 2008

 

Fegurð himinsins.

Sólin var að koma upp. Örlítil hvít slikja efst á Ingólfsfjalli. Hitastigið leikur sér kringum núllið. Efstu toppar trjánna ná aðeins að bærast. Þrátt fyrir ástandið á þessu volaða skeri er gott að vaka og virða fegurðina fyrir sér. Hugsa framávið og sem minnst til baka. Þar er þó margt gott. Ást, veiði og fleiri lífsnautnir. Ég er svo heppinn að muna hið góða og ljúfa betur en hið slæma.Ekkert steinbarn í brjósti.Bjartsýni og lífsgleði eru ennþá fyrir hendi. Það er enn indælt að láta sig dreyma. Þó aldur færist yfir er enn ástæða til að líta vongóður til framtíðar. Ef vonin um betri tíð glatast er lítið eftir. Kannski er ég haldinn sömu hyggju og svo margir aðrir íslendingar.> Þetta reddast einhvernveginn.

Við Kimi erum báðir hér við skrifborðið. Þetta rauðbröndótta dýr vill þrífa skegg fóstra síns. Gamla Gráskeggs. Svalur andvarinn læðist innum gluggann. Við erum ákveðnir í að njóta þessa dags í rólegheitum. Slaka á og ýta því neikvæða til hliðar.Gleyma úlfahjörðinni um stund. Láta rólyndið hafa völdin. Þolinmæði og þrautsegju.

Með þrautsegju og þolinmæði
þraukað hef ég margar nætur.
Þá einatt hafa indæl kvæði
yljað mér um hjartarætur.

Bestu kveðjur frá okkur fósturfeðgum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Bestu kveðjur sömuleiðis. Við HS vorum að koma úr indælli Ítalíuför og fuku þar kvíði og kvart í hafsauga. Endurnærð og reddí fyrir hamarinn. Kannski þyngra framundan hjá okkur flestum en oftast áður en tek þó innilega undir orð þín og ekki orð um það meir: þetta reddast.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online