Monday, October 06, 2008

 

Hagfræði.

Klukkan er rúmlega 13 á mánudegi. Fundir stjórnvalda með atvinnurekendum, samtökum launafólks, bankastjórum og fleirum um helgina virðast ekki hafa skilað miklu. Menntun Geirs virðist engu skipta. Það eina sem við erum upplýst um er að staðan sé grafalvarleg.Aðgerðaleysi síðustu mánaða verður mörgum dýrkeypt. Á Þorra sagði Geir að bjart væri framundan. Nú væri botninum náð og allt færi að ganga betur. En nú, hálfu ári síðar, er allt annað uppi á teningnum. Það er eins og við séum í sjálfheldu á klettabrík í miðjum hamri. Bíðum með öndina í hálsinum. Það kann vel að vera að rétt sé að óska eftir viðræðum um aðild að ESB. En það gagnar lítið nú. A.m.k. 5 ár yrðu í að við gætum tekið upp evru í stað krónu. Þessvegna verðum við að leita annara leiða í bili. Því miður eru engar töfralausnir í augsýn og aðildarviðræður við EES er engin lausn nú, hvað sem síðar kann að verða. Margir bankar í Evrópu loga nú stafnanna á milli. Og evrópusambandið er ráðþrota og getur ekki hjálpað.Ríkisstjórnir margra evrópulanda verða sjálfar að leysa málin. Og virðast vera að því. Eiginlega gagnstætt því sem virðist vera hér á landi.Mín sýn er sú að eignir bankanna erlendis verði að selja strax. Allt sem hægt er að selja. Ég hef miklar efasemdir um aðkomu lífeyrissjóðanna að vandanum eins og sakir standa.Óttast að eignir þeirra erlendis hyrfu fljótt ef þær yrðu færðar heim og settar í hítina. Þó ég sé lítið hrifinn af þessari ríkisstjórn þá væri það versta að hún springi á ástandinu. Við þurfum allra síst upplausn og nýjar kosningar akkúrat nú. Þegar og ef fárviðrinu í efnahagskreppunni lýkur getum við skoðað málin. Við viljum ekki að þúsundir heimila verði gjaldþrota með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Neyslufylleríinu er sjálfkrafa lokið. Við verðum að vera meðvituð um ástandið og bregðast við, hvert eftir sinni bestu getu. Undirritaður er byrjaður. Ét úr kistunni og mér hefur tekist að minnka notkun vindlanna um 42% það sem af er mánuðinum. Staðráðinn í gera betur í þeim efnum. Það eru margir margfalt verr staddir en Hösmagi garmurinn.Því miður. Þetta er heldur dapurlegt í dag.Við verðum að doka við og vona hið besta.
Hitastigið komið í rúmlega 8 gráður og snjórinn að hverfa. Smáljós í myrkrinu. Ég hef oft rætt um verðtrygginguna í þessum pistlum. Þrátt fyrir hana á ég enn hluta af þrumunni góðu. Ég hitti kunningja minn og fyrrverandi starfsfélaga í morgun. Hann keypti sér nýjan bíl í fyrra. Nákvæmlega ár síðan. Hann tók myntkörfulán að fjárhæð kr. 2,7 milljónirkróna. Bíllinn kostaði um 3,5 millj. Hann hefur greitt samviskusamlega af láninu í eitt ár og eftirstöðvar þess nú eru 5 milljónir. Hann tók mark á ráðgjöf í banka. Eins og ástandið er nú er ég betur settur með 10,75% vexti og 15% verðbólgu. Ef einhverntíma hefur verið til bananalýðveldi er það Ísland nú um stundir. Þessi pistill gæti orðið að mörgum síðum. Við súpum nú seyðið af því hvernig þessu landi hefur verið stjórnað síðustu 17 árin. M.a. að hafa haft aflóga stjórnmálamenn fyrir seðlabankastjóra. Menn sem enga menntun hafa í embættið og óhæfir með öllu. Kannski verður á því breyting fyrr en varir. Ég lifi í voninni.
Við Kimi sendum öllum vinum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þetta er sannarlega sorglegt pabbi minn og við finnum öll fyrir því harkalegar jafnvel en við svartsýnustu áttum von á. Höldum haus í bili, þetta reddast eins og Íslendingurinn sagði hérna í denn. Sú stefna sem minnihlutinn hefur verið á móti fær harkalega á baukinn núna og dregur alla með sér í fallinu. En í dag á ég afmæli og er kátur og glaður með mitt. Bestu kveðjur, Sössi Björn
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online