Saturday, October 04, 2008

 

Allt er........

í heiminum hverfult.Vinskapur okkar Kimi er þó hinn sami og jafnan áður. Við erum báðir búnir að viðra okkur í morgun. Það er gjóla, en hitastigið er aftur ofan við núllið. Ég lá á netinu í gær. Fylgdist með útvarpinu og fylgdist með fréttum á báðum sjónvarpsstöðvunum. Það er nú frekar óvenjulegt. Ástandið er ótryggt. Öryggisleysi hins venjulega almúgamanns blasir við. Ekki öllum reyndar. Botninum er náð segir Vilhjálmur Egilsson og Geir tekur undir. Það er skotið úr mörgum áttum. Það má tæpast segja sannleikann. Gylfi Magnússon dósent við HÍ sagði í gærmorgun að í reynd væru allir íslensku bankarnir gjaldþrota. Og mörg fyrirtæki líka. Hann hefur verið snupraður rækilega. T.d. af Sigurði Einarssyni hjá Kaupþingi. Einum af aðalpókerspilurum landsins undanfarin ár. Ég vona að sjálfsögðu að við íslendingar komumst einvernveginn frá núverandi ástandi, en er jafnframt viss um að Gylfi hefur rétt fyrir sér. Spilaborgir eiga það til að hrynja. Þing BNA hefur nú samþykkt 700 milljarða frumvarpið. Á sama tíma er verið að bera níræð gamalmenni út úr íbúðum sínum. Þessi gamla kona sem bera átti út skaut í sig tveimur skotum. Hún lifir þó enn og er á spítala. Sumum á Wall Street líður þó betur. Vofa kapítalsins glottir í skúmaskotunum. Nú er búið að finna Hannes Smárason. Einn af hinum mikilvirku spilurum við græna borðið undanfarin ár.Þótti spila frábærlega. Kraftaverkamaður, sem hamaðist við að búa til peninga.Einn af útrásarvíkingum ÓRG. Hann er í London, ásamt sambýliskonu, börnum og barnfóstru. Og líður mjög vel. Afskaplega mikilvægt fyrir okkur pöpulinn hér heima að fá vitneskju um það.Yljar væntanlega einhverjum þegar fógetinn mætir til útburðar. Eða hvað? Allir spilararnir hafa löngu tryggt sjálfa sig í bak og fyrir. Þó allt hrynji eru þeir á ládauðum sjó. Þeir munu heldur aldrei viðurkenna glæfraspil sitt. Ekki benda á mig segir varðstjórinn.
Einhvernveginn finnst mér mig skorta einbeitingu við verk mín þessa dagana. En það þýðir alls ekki að aka lengi í lágadrifinu. Vonandi er stutt í fluggírinn. Margt er jákvætt. Uppgjöf er víðs fjarri. En gremjan yfir pókerspilinu og afleiðingum þess er þó enn til staðar. Líklega best að láta hér staðarnumið þó nægur sé efniviðurinn til að skrifa um. Ég les að sjálfsögðu enn pistla nafna míns Ólafssonar. En mér hefur ekki tekist að kommentera á þá að undanförnu. Hann fær kveðju mína eins og allir sem kíkja á skrif mín hér. Með kveðju frá okkur Kimi á fallegum laugardagsmorgni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Leitt að þú getir ekki kommentað. Þakka kveðjuna og sendi bestu kveðjur norðvestur yfir úthafið.
 
Smá kveðja bara á meðan allir bíða með öndina í hálsinum, sölvi
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online