Tuesday, October 21, 2008

 

Mugga.

Smáfrost og muggan hefur gert alhvíta jörð. Það var þó ágætt að viðra sig í morgun. Raikonen yfirköttur hélt strax til veiða þegar við vöknuðum. Kom tómkjafta heim. Stundum verðum við að una við öngulinn í bakhlutanum. Bylgjuhreifingin er í veiðinni eins og annarsstaðar. Ég er á leið til höfuðstaðarins nú á eftir. Þarf að hitta hinn ágæta Eirík Jónsson, skurðlækni. Ljúfur náungi sem gott er að tala við. Þetta er bara hluti af eftirfylgni vegna uppskurðarins í fyrra. Fremur tilhlökkun en kvíði í huga mér. Ég ætla að færa honum eintak af Blóðbergi þeirra fóstbræðra. Þetta er bókmenntasinnaður maður og hann var mjög ánægður með sonnettur Keats áritaðar af þýðandanum. Sjálfur hef ég verið að rifja upp kynnin af Martin Beck. Þessar 10 skáldsögur um glæp eru frábærlega skrifaðar. Spennandi, og ekki spillir húmorinn sem svo skemmtilega er fléttaður í sögurnar. Pólís, pólís, pungurinn frýs. Ég las allar bækurnar fyrir svona 15-20 árum og var heillaður af þeim. Virkilega gott að gleyma sér yfir lestri góðra bóka og útiloka vondar staðreyndir á meðan. Ég hef eiginlega skammast mín undanfarin misseri yfir minnkandi bóklestri. Nú eru bækurnar aftur orðnar ómissandi þegar ég skríð undir rekkjuvoðirnar. Krossgáturnar eru svo sem ágætar til að drepa tímann og dreifa huganum. Þær skilja þó ekki mikið eftir sig, gagnstætt lestri góðra bókmennta.
Klukkan er nú að verða sjö að morgni á þessum svala haustmorgni. Kaffi og vindill að venju. Ég hef lokið við u.þ.b. 1/3 af stóra Brasilíuvindlinum sem mér var gefinn í fyrravetur. Það er hörkuvinna að svæla þannig drjóla. Þvermálið um 20 millimetrar og lengdin 20 cm.Allar tölur á hreinu eins og venjulega.Kimi á rjátli í kringum fóstra sinn og mun gæta hússins í fjarveru minni. Ég þakka sérstaklega fyrir skemmtilega kveðju frá Flórens. Hún skilaði sér í gær. Ég ætla líka að hugleiða hvort ekki væri ráð að taka sér netfrí í nokkra daga. Halda sig einungis við blogspot.com. Við rauðskott sendum bestu kveðjur til vina og vandamanna, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online