Monday, October 20, 2008

 

Vetur.

Nú snjóar fyrir norðan. Hér er norðanbál og hiti um frostmark. Fyrsti vetrardagur á laugardaginn kemur. Sennilega verður þessi vetur mörgum nokkuð erfiður. Veðurfarslega og á öðrum sviðum. Ég hef stundum talað um hina endalausu bylgjuhreyfingu í mannlífinu. Tinda og dali, hæðir og lægðir. Stundum eru dalirnir djúpir og lægðirnar krappar. Á dögum eins og þessum fýkur landið brott. Ég sé moldina frá hálendinu á fleygiferð undan norðanstorminum. En það mun lygna á ný. Öll él styttir upp um síðir.
Það er margt skrafað og skeggrætt um efnahagskreppuna. Nýju bankastjórarnir í Glitni og Landsbankanum voru háttsettir starfsmenn í þessum bönkum síðustu árin. Það er ekki gott. Og ef við ekki fáum nýtt fólk til að standa að rannsókn á starfsemi bankanna, fjármálaeftirlitsins, seðlabankans og annara þá er til lítils af stað farið. Það er ekki góðs viti ef glæponinn á sjálfur að ákveða sök eða sýknu. Við þurfum að gera alsherjarhreingerningu í þjóðfélaginu. Losna við sem allra flesta núverandi alþingismenn. Þó ríkisstjórnin fundi og ráðherrarnir gali um stanslausa vinnu sigla þeir sofandi að feigðarósi. Hver dagur skiptir okkur miklu. Stjórnin er klofin í herðar niður varðandi aðild að evrópusambandinu. Digurbarkalegar yfirlýsingar um að stjórnin sé sterkari nú en nokkru sinni áður eru bara hlægilegar. Ég ætla samt að vona að þessi ríkisstjórn lafi enn í nokkra mánuði og sameinist um að gera það skásta sem hægt er. Svo skulum við kjósa nýtt þing á vormánuðum. Það má reyndar búast við dræmri þátttöku þvi þjóðin er búinn að fá uppí kok af stjórnmálamönnum eftir allt sem á undan er gengið. Flokkarnir eiga þó enn nokkra stuðningsmenn. Það er söfnuður sem syngur herrum sínum lof og prís á hverju sem gengur. Náhirðin. Fólkið sem trúir og má ekki heyra gagnrýni á þá.
Við skulum koma lögum yfir glæponana sem hafa komið okkur í þessa stöðu. Og við skulum heldur ekki gleyma mönnunum sem komu þeim í aðstöðu til þess. Því miður svífa andar draugsins og yfirnagarans enn yfir vötnunum. Það má með sanni segja að þeir eigi meginsökina á því hvernig komið er. Og SF ber líka ábyrgð á aðgerðaleysi síðustu missera. Víkingarnir hafa nú endalausan tíma til að fela slóð sína og eignir sem ætti að vera búið að frysta fyrir löngu.En ætli þetta reddist ekki að lokum. Jú, það reddast einhvernveginn. Það gæti líka komið að því að þjóðinni færi að leiðast að láta krossfesta sig.
Nú hefur moldrokið breytt um lit. Orðið hvítt. Ég ætla að leggjast undir sæng mína og hugsa ráð mitt. Hlusta á gnauð vindsins. Kimi sefur á stólnum og ef ég þekki kauða rétt mun hann fljótlega elta fóstra sinn í svefnherbergið. Ég öfunda hann af að vita ekki einu sinni hver er aðalseðlabankastjóri. Kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Slæmar eru horfurnar. Gæti þó verið margfalt verra.

Ingólfsfjallið er þarna enn þá, vinir og ættingjar til staðar og svo gengur fiskurinn aftur í árnar næsta vor. Allt óháð íslenskum efnahagssveiflum.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online