Thursday, October 09, 2008

 

Stjörnurnar.

Ég er fiskur. Fæddur í miðju fiskamerkinu. Lengstaf hef ég nú talið þessa speki alla vera óttalegt kukl. Samt sem áður er ég kominn á þá skoðun að a.m.k. eitthvað sé nú til í þessu. Þetta er allavega ágætt tómstundagaman fyrir marga. Spáin fyrir daginn í dag er að ég þrái að hrista af mér doðann og hefja afkastahrotu. Þetta er allavega satt og rétt og ég mun láta á það reyna. Það er sagt að fiskurinn sé fremur latur og værukær. Ég hef nú oft líkt þessu við laxinn sem dormar í hylnum. En ekki endalaust. Þegar rétti tíminn rennur upp tekur hann sprettinn og stekkur léttilega upp fossinn fyrir ofan hylinn. Að lokum lýkur hann verkum sínum með stíl og sæmd.
Það var fiskur á borðum okkar kisa í gærkvöldi. Tvö ýsuflök. Það minna var soðið sér, án söltunar. Kimi er hálfnaður með það. Hitt stærra og mátulega saltað fyrir Hösmaga. Stappað með smjöri og kartöflum. Í gamla daga var þetta nú gert líka. Eldri sonurinn vildi gera svona krás að Ingólfsfjalli. Þ.e.a.s. moka stöppunni í haug á miðjum diski. Svo át hann fjallið. Ég gerði þetta í gærkvöldi og held að stappan hafi bragðast enn betur fyrir vikið. Þó haust sé komið og myrkrið sé að vinna á er ég sáttur við veðrið. Hver dagur sem hitinn er vel yfir núllinu og ekki snjóar er góður dagur. Á afmælisdegi skáldsins míns í fyrradag komst hitinn í 12 gráður og sólin brosti við okkur annað slagið. Ekki amalegt veður á þessum árstíma. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að ræða landsmálin hér núna. Fjármálaeftirlitið skipaði í nótt skilanefnd fyrir gamla Búnaðarbankann. Þennan sem Ólafur Ólafsson, Finnur merarkóngur og nokkrir aðrir vinir Dóra, draugsins, fengu að gjöf um árið. Og mér dettur alltíeinu Elton John í hug. Nú er talað um að allir standi saman og fortíðin verði að gleymast. Það verði að bjarga því sem bjargað verði. Gott og vel.Í örfáa daga. En mennina sem bera meginábyrgð á því hvernig komið er verður að draga til ábyrgðar. Ekki bara útrásarvíkingana heldur einnig þá sem auðvelduðu þeim verk sín. Ég er ekki að tala um rannsóknarrétt og nornaveiðar. Réttlæti fáum við aldrei og kapitalisminn er langt í frá dauður þó ásjónan hafi fengið skrámur. Ég vona, eins og flestir aðrir íslendingar að við komumst út úr hremmingunum. En við skulum samt ekki gleyma að gera upp við höfuðsökudólgana.
Það rignir og Kári er að ná sér á strik. Hér er hlýtt og notalegt og að venju hefur Kimi hringað sig á gamla stólnum. Áhyggjulaus yfir útrásarliði, yfirnagara, draugnum og hinu dótaríinu. Skyldu stýrivextir lækka í dag? Hvað mun dagurinn bera í skauti sér? Við verðum að bíða eftir Godot. Kærar kveðjur til allra vina, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ég var búinn að steingleyma þessu með ýsufjallið og hef ekki iðkað þetta síðustu áratugi. Núna er sennilega góður tími til að byrja á þessu aftur, við erum hvort eð er komin 20-30 ár aftur í tímann. Mæli með að Finnur verði gerður upp, óttarlegt skoffín.
 
Ég fékk nú bara vatn í munninn þegar ég las þetta, hefði ekkert á móti ýsu í kvöldmatinn. Bestu kveðjur, Sölvi
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online