Friday, October 17, 2008

 

Langar dimmar nætur...

segir í texta Bubba Morthens. Myrkrið smávinnur á birtunni. Samt mun þetta snúast við fyrir jólin eins og ætið áður. Tíðin nú er í mínum augum góð vetrartíð og enginn snjór í kortunum á næstunni. Drungi yfir tilverunni. Raikonen sefur svona 18-20 tíma á sólarhring. Fóstri hans heldur venjum sínum og sefur í 5-6 tíma.Virðist nóg og heilsan er ágæt. Sjaldan hef ég legið jafnmikið á netinu og undanfarnar vikur. Margt í fréttum og bloggarar á útopnu. Sitt sýnist hverjum sem von er. Náhirð nagarans söm við sig. Henni finnst ljótt ef andað er á guð hennar. Mér kom á óvart að jafnvel Geir og Björn Bjarnason telja rétt að hefja rannsókn á bankamafíunni og fleiri aðilum sem hafa leikið lykilhlutverkin í atburðarás síðustu ára. Nákaldur raunveruleiki hennar blasir nú við okkur. Enn eru útrásarvíkingarnir tabú. Snekkjurnar og þoturnar enn á ferðinni. Og það var nú ekki amalegt að lesa lýsingar á útbúnaðinum um borð í snekkju þeir hjóna Jóns Ásgeirs og Ingibjargar. Frúin sjálf aðalhönnuðurinn. Gufubað og jafnþrýstiklefi innanborðs t.d. Enn verður mér hálfflökurt af þessu. Allir eftirlitsaðilar með bankakerfinu brugðust algjörlega. Skýrslum stungið undir stól. Enginn vissi neitt.Ekki benda á mig. Allir stikkfrí þó þjóðinni hafi verið mokað ofan í gljúfrið undir þrítugum hamrinum. Ég hef oft sagt það áður að ég hafi skammast mín fyrir að vera íslendingur. Fyrir dúettinn sem plantaði okkur á lista hinna morðóðu þjóða. Gáfu víkingunum bankana og símann. Héldu vart vatni yfir afrekum þeirra. Og forsetinn yfirklappstjóri. Andskotans bara. Við skulum brenna bænahús þeirra og láta þá strita í svita síns andlitis.

Hann gengur á með skúrum og þokan ekur sér í hlíðum fjallsins góða. Ég þarf í búð að ná mér í mjólk og fleira. Við Ræko erum nú ekki mjög þurftarfrekir. Njótum samvistanna og látum hverjum degi nægja sína þjáningu. Albestu kveðjur til hópsins míns og annars góðs fólks, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online