Thursday, October 02, 2008

 

Frostmark.

Sama nepjan og í síðasta pistli.Kaldast snemma á morgnana. Hitinn hér er nú mínus 0,2gráður. Veðrið fallegt með sólskini.Eftir atburði síðustu daga og vikna líður mörgum illa. Krónan fellur stöðugt. Þó vextir af myntkörfulánunum séu lágir miðað við hérlent vaxtaokur, þá standa margir mjög illa að vígi sem eru með þessi lán. Það geta fáir sem eru með venjuleg laun ráðið við. Allar nauðsynjavörur hækka og reyndar hinar líka. Tóbak og áfengi eiga að hækka um 11,5% um áramótin. Þessar vörur eru inní neysluvísitölunni og munu hækka lán landsmanna um milljarða króna á sekúndubroti.Skiptir þar engu hvort þú kaupir þessar vörur eða ekki. Stýrivextirnir enn í himinhæðum. Og vafasamt að þeir lækki nokkuð. Greiningardeild Kaupþings hvetur yfirnagarann til að hækka þá enn.Og þá hækkar verðbólgan meira og gengið heldur áfram að falla. Auðvitað á að byrja á að lækka stýrivexti. Ástandið er orðið þannig að engin hætta er á frekara neyslufylleríi okkar í bili. Flestir eiga nóg með það sem komið er. Og miklu meira en nóg. Atvinnuleysið eykst stöðugt. Og þeir sem hafa þó enn atvinnu eru margir komnir í vandræði nú þegar.Forsetinn setti þingið í gær. Venju samkvæmt. Innihald ræðunnar kom mér svo sem ekki á óvart.Talaði um forna baráttu okkar fyrir fullveldi, landhelgi okkar og fl. Við eigum ekki að hafa áhyggjur af ástandinu núna. Þjóðin á að styðja ríkisstjórnina. Einhvernveginn kemur fílabeinsturninn aftur uppí hugann. Forseti vor hefur verið duglegur við heimsóknir til fólksins í landinu. Hann hefur líka verið duglegur að ferðast til útlanda.Dásamað útrás íslensku víkinganna. Það virðast engar efasemdir vera í huga hans um ágæti verka þessara víkinga. Ég ætla síður en svo að draga úr áhrifum efnahagskreppunnar víða erlendis á efnahag okkar lýðsins á þessu skeri. Hún er þó bara hluti vandans. Pókerspil tiltölulega fámenns hóps stjórnmálamanna og mannanna sem ýmist fengu eigur okkar landsmanna gefins eða stálu þeim, er meginorsök þess hvernig komið er fyrir almenningi nú. Þeir eru með allt sitt á hreinu. Gætu flestir sest í helgan stein og lifað af gjöfum og þýfi það sem eftir lifir ævi þeirra. Það er dapurlegt að upplifa þetta ástand. Þegar ég lít til baka frá bloggbyrjun 2004 þá sé ég að ég var aldrei of stórorður um þessa hluti. Og því miður sjáum við ekki enn fyrir endann á afleiðingum gjörða snillinganna sem ráðið hafa förinni undanfarin ár.Plágan í seðlabankanum er farin að tala um þjóðstjórn. Nær væri að þessi versta plága sem riðið hefur yfir þetta volaða sker á síðustu áratugum dregði sig burt strax. Það væri ágætt skref í rétta átt.
Þó ég væri snemma á fótum í morgun kom ég mér ekki út úr húsi.Nepja og myrkur. Ég þarf út á eftir í eigin og annara erindajörðum. Kimi sefur á stólnum að venju. Heldur sig fast að fóstra sínum þessa dagana. Ég held að hann skynji að ástandið gæti verið betra. Heilsa mín er þó ágæt. Ég hef ekkert heyrt frá spitalanum. Það þýðir ekki annað en að allt sé í góðu lagi vegna uppskurðarins í fyrra. Það er mér að sjálfsögðu fagnaðarefni. Baráttan heldur áfram. Kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Sæll gamli. Nú stöndum við aumingjarnir bara saman sem aldrei fyrr. Sagan mun dæma lýðskrumarana harkalega. Draumur DOdíar um fagra arfleið er farinn út um þúfur. Við HS hugleiðum atvinnuöflun erlendis. Allir sprækir. Þinn Sössi Bjössi
 
...og svo snjóar á Íslandi ofan á allt saman!

Þar með kastar tólfunum hjá okkur nöfnunum í félaginu ,,Burt með snjóinn".
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online