Tuesday, October 07, 2008

 

Það andar af suðri....

yndislegt veður í bænum. Mér kom þessi ljóðlína í hug í morgun. Hitinn tæpar 10 gráður en nokkuð þungskýjað. Skáldið mitt 30 ára í dag. Þessi dagur fyrir 30 árum er enn ferskur í huga mér. Daginn áður vorum við fjölskyldan í Reykjavík. Ég man meira að segja erindið. Við komum nokkuð seint heim. Rétt fyrir miðnætti sofnaði undirritaður. Sennilega var ég búinn að dorma svona 5 mínútur þegar ég vaknaði við hróp. Vatnið er komið, vatnið er komið. Ég var svo ringlaður að ég vissi ekkert hvað var að gerast. Hvaða fjandans vatn? Var ofninn farinn að leka? En ég var fljótur að átta mig. Hjónarúmið var nánast á floti. Ég klæddi mig og hringdi á sjúkrabíl. Þá annaðist lögreglan sjúkraflutningana. Þeir komu og móðirin var flutt á Ljósheima sem þá var fæðingarheimili okkar Selfyssinga. Ég fór með löggunni á stöðina og drakk heilmikið kaffi og spjallaði lengi við þessa laganna verði. Þeir keyrðu mig svo heim í Laufhaga og einhvernveginn tókst mér að sofa til morguns. Ingvar Jónsson smiður birtist. Það stóð til að setja innihurðirnar í húsið þennan dag.Við hófumst þegar handa. Klukkan hálfellefu var hringt frá fæðingardeildinni. Lítill strákur kominn í heiminn. Lítill og stór um leið. Ingvar hélt áfram en ég dreif mig uppeftir. Mikill fögnuður braust út í brjósti mér. Begga var 10 ára og Maggi 8. Um kvöldmatarleitið voru allar 9 innihurðirnar komnar í. Karmar og gerefti fullfrágengin. Við höfðum flutt í nýja húsið okkar tveim árum áður. Eins fljótt og hægt var. Flest gólfin máluð, lítið um gólfefni, engar innihurðir en eldhúsið var alveg klárt.Tæpu ári síðar, líklega 25. september, kom teppi á ganginn, fjölskylduherbergið og stofuna. Um kvöldið þegar teppalagningamenn höfðu yfirgefið húsið hljóp lítill snáði eftir nýlögðum teppunum. Það voru fyrstu skrefin hans. Svona u.þ.b. hálfum mánuði fyrir eins árs afmælið. Tíminn er afstæður eins og svo margt. Mér finnst eiginlega eins og þetta sé nýskeð þó 30 ár séu liðin. Það hefur löngum verið kært með okkur Sölva mínum. Mér finnst þó að sjálfsögðu jafn vænt um hin 2. En það er líklega algengt í fjöldskyldum að litla barnið njóti eilítillar sérstöðu. Þegar við móðir hans slitum samvistum 1983 var Sölvi bara 4ra ára. Sem betur fer rofnaði sambandið aldrei.Þegar Begga og Maggi voru lítil var ég sífellt meira og minna að heiman. Í skólanum yfir veturinn og leitandi að heitu vatni út um allt land á sumrin. Mér er mjög minnisstætt þegar ég kom einu sinni heim seint að kvöldi eftir 5 vikna fjarveru norður við Kröflu. Begga flaug upp um hálsinn á mér. En bróðir hennar setti upp skeifu. Hann var ekki sáttur við föður sinn að hafa látið sig hverfa.Sármóðgaður. Daginn eftir var allt gott. Maggi hafði fyrirgefið föður sínum og vék ekki frá mér. Ég var í fríi og átti yndislegan dag með fjölskyldunni. Þó langt sé um liðið er indælt að rifja þetta upp á þessum merka degi. Skáldið mitt dvelur fjarri Íslandsströndum í dag. Hann og haldreipið fá ástarkveðjur frá mér. Ég ætla ekki að hringja í afmælisbarnið fyrr en líður á daginn. Náfrændi þess, Auðunn systursonur minn, er fertugur í dag. Hann fær líka hamingjuóskir með daginn.
Aðeins stöku hvítur díll eftir á Ingólfsfjalli. Svipuðu veðri spáð a.m.k. fram á sunnudag. Viðraði mig nokkuð snemma. Hleypti kisa mínum út. Sem betur fer gekk honum ekkert við fuglaveiði í sumar. En hann hefur verið kátur nú í morgunsárið. Það var dauð mýsla á ganginum þegar ég kom heim. Veiðieðlið enn innbyggt í hann eins og mig. Ég ætla að láta mig hlakka til næsta sumars. Klettsvíkin verður á sínum stað og Veiðivötnin líka. Svörtu skýin sem hrannast hafa upp munu gefa eftir. Það mun vora aftur. Í bókstaflegri merkingu og í óeiginlegri einnig. Sölvi minn fær spes góðar kveðjur í dag. Hlakka til að heyra í honum. Bið líka að heilsa öllu öðru góðu fólki, ykkar Hösmagi.

Comments:
Fallegur pistill.

Seint mun ég geta þakkað ykkur Ingu Þóru nógsamlega fyrir að skila besta vini mínum í heiminn.

...og ekki slæmur bónus hvað hin eru frábær og skemmtileg líka.

Til hamingju með strákinn.
 
Strákurinn á(tti) það til að vera smáþrjóskur. Liðin tíð eins og allir vita.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online