Thursday, July 12, 2007

 

Föstudagurinn 13.

Einhverjir með hnút í maganum í dag. Gamla goðsögnin um óheilladag plagar suma. Þetta er fallegur dagur. Sólin löngu komin hátt á loft. Hiti 11,3 gráður með norðangjólu. Við Kimi löngu vaknaðir og hann virðir nú tilveruna fyrir sér úr glugganum. Við skáldið mitt áttum ágætan dag við fljótið á miðvikudaginn var. KR tapaði í bikarkeppninni daginn áður. Mér tókst ekki að landa fiskinum sem ég hafði þó náð að lokka á krókinn. Einhvernveginn var ég alveg slakur yfir því. Þessi fallegi smálax sá bara við mér og tókst með harðfylgi og klókindum að snúa sig af önglinum. Hugsanlega verður hann aftur á ferðinni næsta sumar. Þá orðinn 12-14 pund að þyngd. Skáldið krækti í 2 laxa sem voru ekki eins heppnir og frændi þeirra. Ljómandi fallegir smálaxar sem hækkuðu aflatölu sumarsins um ca 7%. Nú hafa veiðst 40 laxar úr Ölfusá á þessu sumri. Bara þokkalegt miðað við aðstæður og veiði í öðrum og dýrari fljótum. Ég er hæfilega bjartsýnn á gengi mitt í dag. Ég ætla að hlúa sérstaklega að geðprýðinni. Minnugur skítagusunnar sem við skáldið mitt fengum í fyrra frá manni sem þá veiddi með okkur. Hann verður líka að veiðum í dag. Einn af þeim sem ætti annaðhvort ekki að stunda þessa iðju eða stunda hana einn með sjálfum sér. Hann á eitt veiðileyfi og á því nákvæmlega sama rétt og við veiðifélagar hans. En ekkert umfram það. Ég ætla að segja honum það ef á þarf að halda. Vona bara hið besta og að dagurinn verði jafn ljúfur að kvöldi og hann er nú. Svo spillir ekki að 2ja daga frí er framundan. Fimm dagar til að magna sig upp fyrir næsta veiðidag. Miðvikudaginn 18.
Og svo aftur 20. og 21. Ljúft og aftur ljúft. Ég tók eftir því rétt í þessu að Kimi var að djöflast í ryksugubarkanum. Eða það hélt ég. En það reyndist nú vera afrakstur næturverkanna sem hann var að kæta sig yfir. Staðan er sem sagt orðin 7-2 fyrir köttinn. Grrrrrrrrr. Ég verð bókstaflega að laga stöðu mína í dag. Og loka keppinautinn bara inni. Ég veit svo sem að ég hef ekki brjóst í mér til þess. Þessu hlýtur að fara að linna. Allar græjur tilbúnar í grænu þrumunni. Klukkan langt gengin í 6 og áin streymir fram. Geymandi leyndardóma dagsins sem opinberast smátt og smátt. Við veiðidýrin hér í Ástjörn sendum ykkur öllum ljúfar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online