Friday, July 06, 2007

 

Veiðikeppni ?

Jafntefli KR á fimmtudagskvöldið dugði mér í gær. Tókst að krækja mér í litla hrygnu sem átti leið um Ölfusá að morgni dags. Aðeins 12 laxar hafa nú veiðst og menn eru ekki alveg nógu hressir. En þetta er þó enn verra víðast hvar annarsstaðar. Ég get varla kvartað með 16,66% aflans. En eitt er þó ekki nógu gott. Raikonen hinn rauðbröndótti virðist halda að við séum í keppni um það hvor veiði meira. Staðan er nú 5 gegn 2 fyrir köttinn. Ekki mjög skemmtilegt að koma fram í morgun. Fiður hist og her og lík á svölunum. Búinn að þrífa gólf, baðkar og sturtubotninn. Morðinginn er nú úti að leita að næsta fórnarlambi. Ef leitin ber árangur verður hann rassskelltur. Kannski gæti bjalla um hálsinn bjargað einhverju. Þetta er orðið meira en kappnóg. Eðlið er samt við sig. Móðir Hösmaga míns, alsvarta dýrsins, sem bjó með mér í Sænska húsinu, var bara 4ra mánaða þegar hún færði mér fyrstu veiði sína. Ekkert nema stoltið og svo bölvaði ég bara. Kunni ekki að meta fenginn sem hún lagði við fætur mér. Svona bitnar nú vanþakklæti heimsins á smælingjunum.

Mér hefur nú dottið í hug að renna inní Veiðivötn í dag. Svona í skoðunar og kurteisisheimsókn. Veðrið indælt, blankalogn og hlýtt, þó sólarlaust sé. Kannski hægt að nota tímann til annara og þarfari hluta en alltaf toga Vötnin í mann. Svo verður laxaveisla í kvöld. Smálaxinn úr Ölfusá er sérlega bragðgóður. Og mér sýnist þessi 4ra punda hrygna vera í góðum holdum. 2 kg. og 56 sentimetrar að lengd. Ég hlakka bara til. Líklega eru nú ekki komnar nýjar kartöflur á markað. Athuga það þó á eftir. Smjör og tómatar, jafnvel eitthvað fleira gott meðlæti.
Sá morðglaði skálkur, Kimi, kominn inn aftur. Með öngul sinn í afturendanum. Það er nú gott. Það er voðalega erfitt að vera fúll og reiður við þá sem manni finnst vænt um. Og malið, þetta skemmtilega brakandi búkspil, er alltaf jafnnotalegt. Kærar kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online