Saturday, July 14, 2007

 

Rjúpa....

og staur. Flestir kannast við máltækið að rembast eins og rjúpan við staurinn. Það gerði undirritaður í gær. Stritaði lengi við að reyna að lokka fisk á öngulinn. Ákallaði góðar vættir, hafði í heitingum og beitti blíðmælgi og bölvi á víxl. Svo bað ég Hildiþór um að hengja einn á krókinn fyrir mig. Það klikkaði líka. Sennilega er þetta KRingum að kenna. Það eiginlega getur ekki annað verið. Veður var geysigott. Snilld mín við þessa iðju alkunn. Enginn árangur samt sem áður. Meira að segja átti ég nokkra þrælspræka ánamaðka. Bara allt tómur bömmer. En koma tímar, koma ráð. Ég gefst ekki upp. Ég held að það hafi verið skákmeistarinn Tchigorín sem aldrei gaf skák. Lét andstæðinginn frekar máta sig. Sagði sem rétt var að hann hefði aldrei unnið skák með því að gefa hana. Hann krækti stundum í vinning og jafntefli úr gjörtöpuðum skákum af því andstæðingurinn fór einfaldlega á taugum. Ég horfi bara bjartsýnn fram á veginn að venju og átti mjög góða útiveru við fljótið mitt í gær. Tek hann strax í Víkinni á miðvikudaginn kemur. Lancerinn minn er nú 15 vetra gamall. Eftir að hafa gert honum aðeins til góða er hann nú kominn með fulla skoðun. Um daginn var ég að hugsa um að senda hann í endurvinnslu og kaupa annan snattara. En þetta er bifreið með sál og gamli vagninn hvíslaði að mér að við ættum samleið lengur. Malar nú eins og köttur og ætlar að halda þjónustunni við eiganda sinn áfram. Eigendur öllu heldur því skáldið er meðeigandi. Veðrið ljúft að venju. Smávæta birtist úr loftinu í morgun en hún er nú ekki í veðurkortunum svo langt sem augað eygir. Kannski verður vökvað fyrir mig í dag svo möguleiki verði að ná sér í orma. Meðal maðkadorgara eru ormarnir nú sem gull og gersemar. Nokkrir dagar í næsta veiðidag svo kannski er smávon. Sjálfsvirðingin má ekki bíða hnekki. Hugleiðingar um lækkandi lukkustig verður að blása út af borðinu. Annars er voðinn vís. Allt glatað. Ef þú missir trúna á sjálfan þig sem veiðimann er eins gott að pakka saman. Kapút og basta. Hösmagi karlinn er ekki þannig karakter. Dreymdi ekki einu sinni illa í nótt. Á eftir að galdra marga upp það sem eftir lifir sumars. Engar efasemdir um það. Kimi úti að hnusa. Hann varð ákaflega glaður þegar fóstri hans birtist heima í gærkvöldi. Hann hafði ekkert fengið heldur. Bestu kveðjur frá báðum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online