Sunday, July 15, 2007

 

Sumarblíða.

Sama blíðan enn. Hitinn hefur náð tæpum 20 gráðum nú marga daga í röð.Við rauðhausar snemma á rjátli að venju. Veiðidagur fjölskyldunnar var í Ölfusá í gær. Fullt af fólki að reyna fyrir sér og nokkrir fiskar komu á land. Þetta er hefð til nokkurra ára og afar vinsælt. Ekki amalegt veðrið heldur enda fólk léttklætt við þessa skemmtilegu iðju. Dæmi eru um að þessi dagur hafi smitað fólk alvarlega af veiðibakteríunni. Fólk sem aldrei áður hafði haldið á veiðistöng. Nú eru Magnús minn og eldri synirnir í Veiðivötnum. Sennilega er vargurinn í essinu sínu þar núna. Ég ætla að halda mig við ágúst. Þá er mesti vindurinn farinn úr þessari plágu. En hún er auðvitað nauðsynleg fyrir urriðann. Ég neyðist til að vera í brauðstritinu í dag og á morgun. Góðar væntingar til miðvikudagsins enda vel birgur af þessum líka fína ánamaðki. Það er eina beitan sem eitthvað gagnar þessa dagana. Kunningi minn plataði þá upp með gervirigningu á laugardaginn. Hann var búinn að tína eina 25 þegar ég kom uppúr miðnættinu og bætti 95 við. Stórríkur maður allt í einu því flestir eru í hallæri í öllum þurkinum. Nú er bara að sjá í hvernig skapi veiðigyðjan verður. KRingar drulluðust þó við að ná jafntefli í síðasta leik.

Allt mallar við það sama í bæjarstjórninni. Það virðast álög á okkur Selfyssingum að velja vondar bæjarstjórnir. Þessi er reyndar sú sama og beið afhroð í síðustu kosningum. Heldur áfram á sömu braut. Fábjánahátturinn blívur. Og yfirfábjáninn sem ég reyndar lofaði að nefna ekki á nafn framar hjálpar uppá það sem vantar. Með sama áframhaldi mun íhaldið ná hreinum meirihluta hér næst. Þessi skipulagstillaga er svo fráleit að það er ofvaxið skilningi vitiborinna manna hvernig meirihlutinn ætlar að knýja hana fram. Frá horni Kirkjuvegar að Tryggvatorgi verður 5 hæða samfelldur steinmúr. Gegnt brúarsporðinum mun blasa við 34 metra hár reður.Skagandi uppí loftið svo meirihlutinn komist í betra tæri við almættið. Bæjargarðurinn tekin undir fleiri blokkir. Og umferðaröngþveitið mun ná nýjum hæðum. Það er fólkið hér á staðnum sem á að fá að ráða hvernig nýr miðbær verður byggður upp. Þessi tillaga er einungis sniðin að hámarksgróða utanbæjarbesefans sem nú stjórnar meirihluta bæjarstjórnarinnar. Þetta er auðvitað svo svívirðilegur skandall að engu tali tekur. Besefinn kallar okkur, sem berjumst gegn vitleysunni, örfáa úrtölumenn. Hann ætti að halda sig í höfuðborginni og láta okkur í friði. Við skulum sameinast í baráttunni gegn þessu ofbeldi. Það er ekki von á góðu þegar valdasýki og fábjánaháttur leggjast á eitt.

Við Kimi sendum ykkur öllum bestu góðviðriskveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online