Monday, July 23, 2007

 

Sumarveisla.

Enn er íslenska sumarið að sanna hvað það getur verið indælt. Hér var 19 gráðu hiti í gær og nú í morgunsárið eru hér 13 stig þrátt fyrir þokuslæðing á fjallinu góða. Í síðustu viku var ég að lýsa tilhlökkun minni með komandi veiðidaga. Þegar síðast frettist var staðan 7-4 fyrir Kimi. Fimmtudagurinn leið tíðandalitill. Gott veður á föstudagsmorgni. Mættur í Víkina vel fyrir 7. Það sást ekki sporður né uggi. Á hádegi var ég nú að hugsa um að gefa þessu frí. En minnugur þess að þolinmæðin er mikilvæg og gefur stundum hélt ég áfram. Þegar 4 mínútur lifðu af veiðitímanum komu launin. Sjöpundari renndi sér á öngulinn og enn hafði staðan lagast. 7-5. Það var ljúft að leggja sig og sofna eftir matinn. Seinni vaktin á efra svæðinu byrjaði kl. 4. Ég var eins og ræsir með skeiðklukku. Færið rann í ána á slaginu. Og laxinn tók eftir 2 sekúndur. Þetta skeður stundum þarna. Laxinn beið bara eftir mér nákvæmlega þar sem ég reiknaði með honum. Svo leið smástund. Annar svangur á ferð og ég hafði jafnað metin. Klukkan hálffimm sá ég haus kíkja uppúr stengnum fyrir neðan mig. Ég sigtaði út stefnuna og hann lét einnig blekkjast. Magagleypti orminn. Þessi föstudagur hafði nú gefið Hösmaga gamla 4 laxa og nú var Kimi orðinn undir í veiðikeppninni. 7-8. Það sem mér fannst einkennilegast var að hunterinn bærði ekki á sér. Ég hefði svo sem verið til í fleiri fiska. En var mjög slakur og sáttur við frábærlega góða veiði. Dagur leið að kvöldi við góða útiveru. Það var sæll og ánægður veiðimaður sem sofnaði fljótt þegar heim var komið. Laugardagsmorguninn lofaði góðu. Sama blíðan og áin rann áfram með sínum þunga nið. Ég hélt á sömu mið og daginn áður. Klukkan var 7 en nú var hann ekki við. Svo minntist ég þess að hafa séð fisk lyfta sér um leið og ég yfirgaf svæðið kvöldið áður. Ég fór að þreifa fyrir mér. Svolítið óhefðbundið. Fljótlega fann ég hreyfingu. Bölvaði silungstittinum sem sífellt eyðileggur ánamaðkinn á vissum stað. En svo varð þetta ákveðnara. Falleg hrygna á bakkanum skömmu síðar. Ég skipti svo um svæði við annan veiðimann. Kembdi Miðsvæðið með spún og túpu. Ekkert líf að því er virtist. Fékk mér af nesti mínu, vindil og kíkti svo í Víkina. Þar var einn kominn á land. Þegar ég kom í Klettsvík klukkan hálfellefu sáum við fisk. Veiðifélaginn sagði mér að taka hann. Önnur hrygna. 10-7 fyrir gamla veiðirefinn. Kimi fagnaði mér samt ákaflega við heimkomuna. Víkin var svo líflítil alla seinni vaktina. Það var bara allt í lagi. Sumarveislan stendur sem hæst. Tjaldur, lómur, endur og kría. Einn og einn lax að sýna sig og veðrið himneskt. Hvers getur útivistarmaður og náttúruunndandi óskað sér frekar. Svo halda dásemdirnar áfram um næstu helgi. Veiðivötnin á fimmtudag í næstu viku. Himbriminn bíður og fagnar vinum sínum.

Kimi Raikonen komst ekki í mark í formúlunni í gær. Þessi auma fíatdrusla gafst upp á miðri leið. Við nafni hans þrælspældir og fúlir. Svona smástund. En gleðin ríkir hér í Ástjörn. Gleðin yfir sumardýrðinni og því að fá að njóta hennar. Það eina sem vantar uppá til að fullkomna hana er að fábjánameirihlutinn hrökklist frá völdum. Skemmdarvargarnir sem allir eru heillum horfnir. Skyldi annars nokkur heili vera í þessu liði? Ég er farinn að efast um það.

Við Kimi sendum ykkur öllum sumarkveðjur. Sáttir við tilveruna og vinskapurinn ekki minni en áður. Ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online