Tuesday, July 31, 2007

 

Hangikjöt.

Ég er að sjóða hangikjöt. Rúllu sem varð afgangs um síðustu jól. Verður andskoti gott með flatkökum Gríms í Veiðivötnum. Við munum ekki svelta feðgar og langfeðgar. Enda venjan sú að birgðirnar séu ríflegar. Kannski eru það bara pönnukökurnar sem vantar. Nema ég geri tilraun í kvöld. Nú vantar bara góða konu á þennan bæ. Ef ég tek upp þráðinn þar sem frá var horfið í síðasta pistli þá átti ég ágætan sunnudag við elfuna góðu. Það bættust 3 laxar við sumaraflann sem varð því samtals 14 stykki. Það er þó líklegt að ég reyni fyrir mér einhverntíma í ágúst. En æfintýri sunnudagsins var stóri fiskurinn í Klettsvík. Það var eiginlega bæði skemmtilegt og sorglegt í senn. Ég ákvað að reyna aðra aðferð við rennsli færisins en venjulegt er. Útí strengnum tók laxinn færið. Ég fann strax að hér var stórlax á ferð. Það hófst heilmikil barátta milli hans og veiðimannsins. Ég sá fiskinn flatan í yfirborðinu og áætlaði stærð hans svona á bilinu 16 til 20 pund. Þegar fiskurinn hafði tekið nokkrar rokur og leikurinn stóð sem hæst heyrðist skyndilega hár smellur. Línan söng í sundur og fiskurinn hvarf á braut með öngul, sökku og 20-30 metra af línunni. Þetta er það versta sem hendir nokkurn veiðimann.Ef fiskurinn hefði losnað af króknum hefði þetta einungis verið skemmtileg minning um fisk sem hafði betur. En ég skildi illa við þennan konung fiskanna. Kannski er hann merktur dauðanum eftir átökin. Það er lítið við þessu að gera en þetta hryggir alla góða veiðimenn. Svona atvik verða til að minna mann enn betur á nauðsyn þess að yfirfara veiðarfærin vel og reglulega. Þetta hefur hent mig áður en sem betur fer mjög sjaldan. Það fer ný og traust lína á hjólið í dag. Verð í fríi frá hádegi. Margt að gera við undirbúning veiðiferðar.
Hildur skar hár og skegg Hösmaga í gærkvöldi. Það er margt spjallað hjá rakaranum. Og það er einsætt að meirihluti bæjarstjórnarinnar er ekki hátt skrifaður hjá þorra fólks hér á staðnum. En það virðist ekki skipta hann hinu minnsta máli. Bæjarstjórinn glennir sig í Séð og heyrt og er á leið í barnsburðarleyfi. Svo sem ágætt út af fyrir sig. Nú er Ingólfur, gamla litla vinalega húsið við brúarsporðinn, horfinn á braut. Ég myndi sætta mig við það ef næsta skref yrði að jafna Hótel Selfoss við jörðu. Gamla götumyndin af Selfossveginum var unaðurinn sjálfur miðað við óskapnaðinn sem þar er nú. Þessi meirihluti bæjarstjórnarinnar, rúinn öllu trausti, ætlar sér að halda eyðileggingariðju sinni til streitu. Enginn þessara bæjarfulltúa mun verða endurkjörinn. En það er lítil huggun í því ef þeim tekst ætlunarverk sitt. Enginn ærlegur borgari þessa sveitarfélags getur kosið þessa fábjána aftur. Þeir heyra ekki og þeir sjá ekki. Þeim er gjörsamlega alls varnað. Þeir reiða hrokann í þverpokum en vitið er einhverstaðar víðs fjarri.
Skömm þeirra má ekki gleymast.

Norðangjóla og 10 gráður. Við Kimi hressir og gæslukonan kemur á morgun. Sú hin sama og gætti hans í fyrra. Gott mál. Við sendum ykkur bestu kveðjur á þessum fyrsta degi ágústmánaðar. Megi hann færa ykkur gleði, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online