Sunday, July 01, 2007

 

Vísindin....

efla alla dáð. Og láta ekki að sér hæða. Þetta gekk allt eftir í gær. Nafni minn ágætur reyndist sannspár. Laxinn kom. Eftir sigur KR á FRA M. Veðrið var ágætt í gær þó sólarlaust væri hér austan Hellisheiðar. Dauft yfir ánni í gærmorgun. Einkadóttirin kom í heimsókn ásamt sinni einkadóttur eftir hádegið. Afadrottningunni sjálfri. Það var að sjálfsögðu indælt. Klukkan var nokkuð gengin í 5 þegar ég hélt að ánni á ný. Fljótlega setti veiðifélagi minn í fisk. En fiskurinn hafði betur og slapp af króknum. Hann hafði tekið ánamaðk en ég renndi túpunni góðu því maðkur er nú mikið fágæti eftir allan þurkinn. Sumir veiðimenn eru öðruvísu en aðrir. Þessi félagi vildi endilega gefa mér nokkra orma. Átti hann þó ekki mikið af þeim og var aftur á leið í veiði í dag. Margir hefðu nú lúrt á orminum eins og ormur á gulli. Ég mun alltaf kunna þessum ágæta Eyrbekkingi bestu þakkir. Nú, nú. Ég beitti ormi á öngul. Og viti menn. Rétt fyrir framan stólinn virtist færið skyndilega fast. Ég tók á því og þá var tekið í á móti. Laxinn hafði rennt lostætinu beint oní maga. Mér tókst að lempa þessa fallegu hrygnu upp með berginu og inní víkina. Nýgengin 9 punda hrygna, silfurbjört og falleg. Nú verð ég að tala varlega og vel um KRinga. Vona að þeir vinni næsta leik líka. Koma svo, KRingar. Veiðifélaginn fékk laun fyrir gjafmildi sína. Hann náði einnig að landa laxi. Laxinn hans var 2,2 kg., hængur, alveg tilvalinn til að setja beint í pottinn í gærkvöldi. Við yfirgáfum ána sælir og ánægðir með veiði okkar. Það má veiða hér frá 7-13. Þá er hlé til kl. 16 og menn skipta um svæði. Og menn veiða til kl. 22.Gengið á móti okkur náði einum laxi svo þetta varð bara ágætur dagur. Það var sportveiðimaðurinn Hösmagi sem hafði völdin í gær. Hunterinn lét ekkert á sér kræla. En það er hætt við að dráparinn hefði vaknað af blundi ef ég hefði strax náð öðrum laxi. Þetta var bara sérlega indælt. Síðasti dagur júnímánaðar var því afskaplega ljúfur. Allur júlímánuður eftir með 8 veiðidögum. Og Veiðivötnin 2.-4. ágúst. Verst hvað brauðstritið truflar mann við þessa skemmtilegu iðju. Þó það sé svo sem ágætt líka. Við Kimi erum geysihressir að vanda. Lognið er algjört. Alskýjað og líklega gott veiðiveður. Við sendum veiðikveðjur til ykkar allra, ykkar Hösmagi.

Comments:
Sko!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online